Utanríkisráðherra Tékklands kallaði til sín sendiherra Kína í morgun í tengslum við netárás sem var gerð á utanríkisráðuneytið árið 2022.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að umfangsmikil rannsókn á árásinni hafi leitt í ljós að árásarmennirnir hafi nær vafalaust verið netnjósnahópurinn APT31.
„Ég kallaði til mín sendiherra Kína til að gera það skýrt að slíkar óvinveittar aðgerðir hefðu alvarlegar afleiðingar í okkar tvíhliða sambandi,“ skrifar Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, í færslu á X.
Utanríkisráðuneytið, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið sögðu í yfirlýsingu að árásin, sem var gerð árið 2022, hafi beinst að „einu af opinberu netum ráðuneytisins“.
Í yfirlýsingunni segir enn fremur að netnjósnahópurinn tengist kínverskum stjórnvöldum og utanríkisráðherrann krefst þess að Kínverjar hætti slíkum aðgerðum og geri grein fyrir ástandinu. Í fyrra tóku tékknesk stjórnvöld Kína af lista yfir öryggisógnir.
NATO fordæmir einnig árásina og segir hana hluta af aukningu í netárásum sem eiga rætur að rekja til Kína.
Samband Kínverja og Tékka hefur verið streitufullt síðan stjórnvöld í Prag mynduðu náin bönd við stjórnvöld í Taívan, en Kínverjar vilja meina að Taívan sé sitt landsvæði.