Áhrifavaldurinn Andrew Tate var stöðvaður á 196 kílómetra hraða á götu í Rúmeníu þar sem 50 kílómetra hámarkshraði er leyfður.
Tate var tekinn á næstum fjórföldum hámarkshraða í þorpi nærri Búkarest, höfuðborg Rúmeníu.
BBC greinir frá því að Tate var sektaður um 420 dollara, eða um 53 þúsund íslenskar krónur, og sviptur ökuréttindum í 120 daga. Tate neitar að hafa ekið of hratt og segist ætla að áfrýja málinu.
Í færslu á samfélagsmiðlum sagðist hann hafa reynt að útskýra fyrir lögreglunni að hraðamælingartæki þeirra hlyti að vera stillt vitlaust „þar sem ég myndi aldrei gera þetta“.
Þá sagðist Tate hlakka til að sanna sakleysi sitt og sagði að hann myndi njóta ökuréttinda sinna líkt og venjuleg manneskja þangað til, þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum.
Tate og bróðir hans Tristan hafa verið ákærðir fyrir nauðgun og mansal í Rúmeníu. Þá eru þeir ákærðir fyrir glæpi í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þeir neita sök.
Bræðurnir hafa leyfi til þess að ferðast innan Rúmeníu, þar sem þeir búa, og til annarra ríkja að settum ákveðnum skilyrðum á meðan mál þeirra bíða málsmeðferðar.
Tate hefur nokkrum sinnum verið tekinn fyrir hraðakstur í Rúmeníu.