Þrír voru fluttir á sjúkrahús, enginn þeirra þó alvarlega skaddaður, eftir að sprengja sprakk á fjórða tímanum í nótt að sænskum tíma við íbúð í bænum Södertälje, tæplega 40 kílómetra suðvestur af Stokkhólmi.
„Eitthvað sprakk við íbúð á jarðhæð með þeim afleiðingum að gluggi brotnaði og mikill reykur steig upp,“ segir Daniel Wikdahl upplýsingafulltrúi lögreglunnar í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT og bætir því við að höggbylgja frá sprengingunni hafi verið nægilega öflug til að öryggiskerfi í nálægri byggingu sendi frá sér innbrotsviðvörun.
Lokaði lögregla svæðinu umhverfis vettvang auk þess að kalla eftir aðstoð sprengjudeildar og hefur leit að grunuðum sprengjumanni staðið yfir síðan snemma í morgun með fulltingi sporhunda auk þess sem rætt hefur verið við nágranna og hugsanleg vitni önnur.
„Nokkrir hafa verið færðir til yfirheyrslu,“ segir Wikdahl, en atvikið er rannsakað sem skemmdarverk með almannahættu og stórfellt brot gegn lögum um eld- og sprengifim efni.