Sögufrægt hótel í ljósum logum

Slökkvilið berst við logana í þaki hins sögufræga hótels í …
Slökkvilið berst við logana í þaki hins sögufræga hótels í gær, en aðalbygging þess var reist árið 1877. Skjáskot/Myndskeið Helenu Andersen

Elds­voði í hinu sögu­fræga norska hót­eli Hankø Hotell & Spa, í útjaðri Fredrikstad í Østfold, varð til þess að 49 gest­um og fimmtán starfs­mönn­um var gert að rýma hót­elið síðdeg­is í gær, hvíta­sunnu­dag, en hót­elið, sem tók til starfa árið 1877 er, eins og nafn þess gef­ur til kynna, staðsett á lít­illi eyju, Hankø,vin­sæl­um sum­ar­dval­arstað frá ómunatíð og mik­illi nátt­úruperlu.

„Gest­ur nokk­ur kom hlaup­andi og sagði að kviknað væri í þak­inu,“ seg­ir Helena And­er­sen sem stóð vakt­ina í and­dyr­inu er log­anna varð vart.

Beið And­er­sen ekki boðanna held­ur hringdi í neyðarlínu á meðan hún gerði upp­töku af brun­an­um á síma sinn. Fór hún því næst í það ásamt sam­starfs­fólki sínu að koma tæp­lega 50 gest­um út úr bygg­ing­unni og gekk aðgerðin snurðulaust fyr­ir sig.

Eyjan Hankø er úti fyrir Fredrikstad og hefur verið vinsæll …
Eyj­an Hankø er úti fyr­ir Fredrikstad og hef­ur verið vin­sæll sum­ar­dval­arstaður um ald­ir. Átti norska kon­ungs­fjöl­skyld­an þar lengi vel sum­ar­bú­staðinn Bloks­berg þar til Marta Lovísa prins­essa seldi hann árið 2018 fyr­ir 26 millj­ón­ir norskra króna, jafn­v­irði rúm­lega 325 millj­óna ís­lenskra króna. Skjá­skot/​Open­Map Til­es

Mat­sal­ur­inn á Heims­sýn­ing­unni 1906

Auk slökkviliðs kom norska strand­gæsl­an að slökkvi­starf­inu á varðskipi, enda mikið í húfi, til dæm­is var mat­sal­ur hót­els­ins til sýn­is á Heims­sýn­ing­unni í Mílanó á Ítal­íu árið 1906.

„Þetta er skelfi­lega sorg­legt, ég hef verið hér við hót­el­rekst­ur í rúm­lega 40 ár og aldrei upp­lifað eins al­var­legt at­vik og þetta,“ seg­ir Henn­ing Fors­berg, eig­andi og stjórn­ar­formaður hót­els­ins, við norska rík­is­út­varpið NRK.

Gekk slökkvistarf fljótt fyr­ir sig þótt slökkviliðið í Fredrikstad hafi þurft að taka áætl­un­ar­ferj­una út í Hankø, en fjöl­miðlar hafa enn ekki greint frá um­fangi þess tjóns sem varð á þess­ari tæp­lega 150 ára gömlu bygg­ingu.

NRK

Netta­visen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert