Árásir Ísraelshers á Íran í dag hafa afhjúpað alvarlega veikleika íranskra stjórnvalda sem hafa hamlað getu þeirra til að bregðast við hernaðarlega. Þetta segja hernaðarsérfræðingar.
Talsmenn Ísraelshers segjast hafa gert árásir á 100 skotmörk, þar á meðal íranskar kjarnorku- og herstöðvar. Þá hafi þeir fellt háttsetta einstaklinga, meðal annars yfirmann herafla og fremstu vísindamenn á sviði kjarnorkumála í landinu.
Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, hefur varað Ísrael við því að „beisk og sársaukafull“ örlög bíði þeirra vegna árásanna. Hernaðarsérfræðingar telja aftur á móti að Íran standi aðeins frammi fyrir fáum valkostum hvað varðar viðbrögð.
Ali Fathollah-Nejad, framkvæmdastjóri hugveitunnar Center for Middle East and Global Order (CMEG) í Berlín í Þýsklandi, segir að þetta sé meiri háttar högg og áfall fyrir Íran.
„Þetta afhjúpar alvarlegan veikleika stjórnkerfisins hvað varðar hernaðar- og öryggismál og lykilinnviði landsins – þar á meðal kjarnorkumál – sem og æðstu stjórnmála- og herleiðtoga þess,“ sagði Nejad við AFP.
Hann bætti við að markmið aðgerðanna væri að lama hernaðar- og gagnárásargetu Írans.
Bandaríkin og önnur vestræn ríki, ásamt Ísrael, hafa sakað Íran um að ætla sér að smíða kjarnorkuvopn.
Írönsk stjórnvöld vísa því hins vegar alfarið á bug. Ríkið hefur aftur á móti smátt og smátt verið að víkja frá skuldbindingum sínum samkvæmt kjarnorkusamkomulaginu sem það gerði árið 2015, eftir að Bandaríkin drógu sig út úr því.
Samningurinn gekk út á það að Íran myndi ekki hljóta refsiaðgerðir eða efnahagsþvinganir svo lengi sem ríkið myndi draga úr kjarnorkuáætlun sinni.