Norskir lögreglumenn, sem hafa hingað til almennt verið óvopnaðir við dagleg störf, munu í framtíðinni geta borið skotvopn eftir lagabreytingu sem samþykkt var á norska þinginu í gær.
Meirihluti þingheims studdi eindregið frumvarp frá minnihlutastjórn Verkamannaflokksins um að heimila lögreglu að bera skotvopn við skyldustörf.
Það verður svo í höndum norskra lögregluyfirvalda, ríkislögreglustjóra og ráðuneytis að afmarka málið nánar. Það fari m.a. eftir tímasetningu, staðsetningu og verkefnum.
Nákvæm dagsetning varðandi gildistöku laganna liggur ekki fyrir en talsmenn dómsmálaráðuneytisins segja að stefnt sé að gildistöku þeirra á næsta ári.
„Allir í Noregi verða að finna til öryggis. Lögreglan verður að geta tekist á við glæpastarfsemi sem er sífellt að þróast,“ sagði Astri Aas-Hansen dómsmálaráðherra í síðasta mánuði þegar lagabreytingin var kynnt.
Glæpatíðni í Noregi er lág miðað við önnur lönd í heiminum en hefur verið að færast í aukana. Alls búa um 5,6 milljónir í landinu. Þar voru framin 38 morð árið 2023 en þau höfðu þá ekki verið fleiri á einu ári frá árinu 2013 samkvæmt opinberum tölum.
Sem stendur getur norska lögreglan aðeins borið vopn í takmarkaðan tíma og við sérstakar aðstæður. Venjulega eru lögreglumenn óvopnaðir við skyldustörf, þó að vopn megi enn hafa í skotti ökutækja þeirra.