Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að Íranar muni gjalda þess dýru verði að hafa drepið ísraelska ríkisborgara.
Hörð átök á milli landanna tveggja hafa haldið áfram í dag.
„Íran mun gjalda dýru verði fyrir fyrirfram ákveðin morð á almennum borgurum, konum og börnum,” sagði Netanjanú er hann heimsótti svæðið þar sem eldflaugaárás var gerð á íbúðabyggingu í strandborginni Bat Yam, nálægt borginni Tel Aviv.
Að minnsta kosti tíu manns eru látnir eftir flugskeytaárásir Írans á Ísrael í nótt.
Ísraelsher sagðist í morgun hafa skotið á yfir 80 mismunandi staði í írönsku höfuðborginni Teheran á þriðja degi átakanna á milli landanna tveggja.
Árásir hersins voru gerðar í nótt. Meðal annars var skotið á höfuðstöðvar íranska varnarmálaráðuneytisins og höfuðstöðvar kjarnorkuverkefnis Írans (SPND), að sögn hersins.
Írönsk yfirvöld tilkynntu í morgun að almennir borgarar gætu frá og með kvöldinu í kvöld leitað skjóls frá árásum Ísraelshers í bænahúsum, neðanjarðarlestarstöðvum og í skólum.