Læknir var á mánudaginn dæmdur í lífstíðarfangelsi í Þýskalandi fyrir glæpi gegn mannkyni. Maðurinn er frá Sýrlandi og áttu voðaverkin sér stað þar.
Hann er m.a. dæmdur fyrir manndráp og pyntingar í þágu stjórnar Bashar al-Assad sem hefur nú hrökklast frá völdum.
Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian.
Alaa Mousa, hinn dæmdi, beitti níu stjórnarandstæðinga í varðhaldi Assad pyntingum og myrti tvo þeirra samkvæmt dómsúrskurði. Það var í borginni Damaskus og Homs í Sýrlandi á árunum 2011 – 2012. Fórnarlömb hans voru ásökuð um að hafa unnið gegn Assad í byltingartilraun arabíska vorsins.
Dómarinn sem kvað upp úrskurðinn í Frankfurt sagði lækninn hafa „sadíska“ tilhneigingu og að hann hefði notið þess að meiða fólk sem hann taldi vera fyrir neðan sína virðingu.
Læknirinn flutti frá Sýrlandi til Þýskalands fyrir um tíu árum og starfaði þar sem læknir á hinum ýmsu stöðum. Upp komst um fortíð hans þegar eitt fórnarlamba hans kannaðist við hann úr heimildarmynd um sýrlensku borgina Homs, þar sem hann framdi hluta glæpanna.
Viðkomandi gerði lögreglu viðvart sem handtók hann í kjölfarið. Þrátt fyrir að glæpirnir hefðu verið framdir í Sýrlandi en ekki Þýskalandi gátu dómstólar þar dæmt hann á grundvelli alþjóðlegra laga, þar sem glæpirnir vörðuðu alþjóðleg lög um glæpi gegn gervöllu mannkyninu.