Erlendir ríkisborgarar sem ætla að sækja nám í Bandaríkjunum mega ekki vera með læsta samfélagsmiðlareikninga svo að yfirvöld geti leitað eftir „andamerískum“ áróðri þar.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna gaf út tilmælin í dag. Ráðuneytið hafði áður gefið það út í maí að það myndi ekki gefa út vegabréfsáritanir fyrir erlenda nemendur á meðan það væri að vinna í nýjum tilmælum fyrir erlenda nemendur.
Þau hafa nú verið gefin út og því munu bandarísk yfirvöld taka við umsóknum um vegabréfsáritanir erlendra nemenda á ný.
„Aukin skoðun á samfélagsmiðlum mun tryggja það að við skoðum gaumgæfilega hverja einustu manneskju sem reynir að heimsækja landið okkar,“ sagði háttsettur embættismaður í utanríkisráðuneytinu.