Forstjóri OpenAI, Sam Altman, segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi fengið „risatilboð“ frá samkeppnisaðilanum Meta, þar á meðal undirskriftarbónusa upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar um 12,5 milljörðum íslenskra króna.
Meta, sem á samfélagsmiðlana Facebook, Instagram og WhatsApp, hefur verið að auka umsvif sín í gervigreind og keypti nýverið 49% hlut í bandaríska sprotafyrirtækinu Scale AI fyrir 14 milljarða dollara. Samkvæmt Altman hefur þó „að minnsta kosti hingað til“ enginn úr lykilteymi OpenAI fallist á tilboð Meta, segir í frétt BBC um málið.
Í hlaðvarpi bróður síns, Jack Altman, ræddi Sam um samkeppnina við Meta og sagði að fyrirtækið væri að bjóða mun hærri heildarlaun á ársgrundvelli en OpenAI, þótt hann hafi ekki útskýrt nánar hvort um væri að ræða beinar greiðslur, hlutabréf eða aðra hvata. Hann sagðist þó telja að starfsmenn væru áfram hjá OpenAI vegna þeirrar framtíðarsýnar sem fyrirtækið hafi í þróun ofurgreindar og mögulegra efnahagslegra ávinninga tengdum henni.
Ofurgreind er næsta stig í þróun gervigreindar, þar sem markmiðið er að hún fari umtalsvert umfram vitsmunalega getu manna. OpenAI og fleiri tæknifyrirtæki telja að almenn gervigreind (AGI), þar sem gervigreind getur leyst verkefni jafnt eða betur en mannfólk, sé ekki langt undan.
Í janúar tilkynnti OpenAI um samstarf við fjárfesta um að reisa ný gagnaver fyrir samtals 500 milljarða dollara til að knýja áfram gervigreind í Bandaríkjunum. Altman sagði í hlaðvarpinu að hann teldi OpenAI líklegra en önnur fyrirtæki til að skila raunverulegri ofurgreind og verða á endanum verðmætara fyrirtæki.
Hann sagðist virða Meta sem fyrirtæki og viðurkenndi að samkeppnin væri skynsamleg. Hins vegar efaðist hann um að Meta væri sérlega nýsköpunardrifið og líkti aðferðum þess við þróun ofurgreindar við misheppnaða tilraun Google til að stofna samfélagsmiðil til að keppa við Facebook.
Ummæli Altman eru nýjasta dæmið um forystufólk í tækniheiminum sem lýsir opinskátt skoðunum sínum á aðgerðum samkeppnisaðila, ekki síst í vinsælum hlaðvörpum. Í janúar sagði Mark Zuckerberg, stofnandi Meta, í hlaðvarpi Joe Rogan að iPhone væri „augljóslega ein af mikilvægustu uppfinningum líklega allra tíma,“ en gagnrýndi um leið skort Apple á nýsköpun síðustu ár.
Zuckerberg hefur jafnframt átt í opinberum orðaskiptum við Elon Musk, forstjóra Tesla og samfélagsmiðilsins X, þar sem þeir hafa meðal annars hótað hvor öðrum bardaga í búri. Musk er um þessar mundir einnig í lagalegum deilum við Sam Altman vegna stofnunar OpenAI.