Stjórnvöld í Íran hafa varað ríkisstjórn Bandaríkjanna við afskiptum af átökum Írans við Ísrael. Þeim myndu fylgja harkaleg viðbrögð.
„Glæpsamleg ríkisstjórn Bandaríkjanna og þeirra heimski forseti skulu hafa það á hreinu að ef þau gera þau mistök að hefja aðgerðir gegn Íran verður þeim mætt með harkalegum viðbrögðum frá íslamska lýðveldi Íran,“ segir í tilkynningu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður íhuga árásir á kjarnorkuinnviði Íran til stuðnings Ísraelsmönnum sem hófu loftárásir á föstudag. Íranar svöruðu árásunum strax með loftárásum á Ísrael og hafa árásir nú gengið á víxl í sjö daga.