Milljón manns fengu margfaldar bætur

Lotte Øverbye Iversen fékk bæturnar sínar sex sinnum í morgun …
Lotte Øverbye Iversen fékk bæturnar sínar sex sinnum í morgun þótt hún fengi ekki að halda fimm af þeim millifærslum. Bilun hjá DNB olli skammvinnu ríkidæmi milljón Norðmanna. Skjáskot/NRK

Ein millj­ón norskra bóta- og eft­ir­launaþega í viðskipt­um við DNB-bank­ann þarlenda vaknaði upp við góðan – en skamm­vinn­an – draum í morg­un þegar vinnu­mála­stofn­un­in NAV greiddi út bæt­ur sín­ar.

Vegna kerfis­villu hjá bank­an­um komu færsl­urn­ar frá NAV allt að sex sinn­um í röð inn á banka­reikn­inga skjól­stæðinga stofn­un­ar­inn­ar og náði bil­un þessi í tölvu­kerf­um bank­ans til alls tveggja millj­óna færslna.

Ný­vaknaðir Norðmenn töldu sig því marg­ir hverj­ir hafa dottið hressi­lega í lukkupott­inn og hef­ur vafa­lítið ein­hverj­um flogið í hug að NAV, ein af um­deild­ari stofn­un­um Nor­egs fyr­ir ýms­ar sak­ir, hafi loks­ins ákveðið að fara að greiða út al­menni­leg­ar bæt­ur.

Fékk sex­fald­ar bæt­ur

Til dæm­is Lotte Øver­bye Iversen taldi sig hafa him­in hönd­um tekið þegar hún las sex stafa tölu í norsk­um krón­um af banka-app­inu í sím­an­um sín­um með morgunkaff­inu. Bóta­greiðslan henn­ar, 33.093 krón­ur, sem jafn­gild­ir 410.386 ís­lensk­um krón­um, kom svo ít­rekað inn á reikn­ing­inn að þar voru um skamma hríð rúm­lega 200.000 norsk­ar krón­ur, tæp­lega 2,5 millj­ón­ir ís­lensk­ar.

„Um ein millj­ón manns varð fyr­ir barðinu á bil­un­inni,“ seg­ir Vi­dar Kors­berg Dals­bø, upp­lýs­inga­full­trúi í DNB, við norska rík­is­út­varpið NRK, en ekki leið á löngu uns tækni­menn réðu bót á ástand­inu og inni­stæður reikn­inga leiðrétt­ust.

Ann­ar hóp­ur fékk hins veg­ar ekki bæt­urn­ar sín­ar, en er full­vissaður um að þær komi í fyrra­málið í staðinn.

Þá kom upp bil­un hjá öðrum norsk­um banka í morg­un, Sparebank1, sem lýsti sér þannig að upp­lýs­ing­ar um inn­borg­an­ir vantaði í net­banka viðskipta­vina þótt greiðslur hefðu skilað sér inn á reikn­ing­inn. Sagði upp­lýs­inga­full­trúi þar, Christ­ine Mel­ing Christen­sen, við NRK í morg­un að unnið væri að úr­bót­um þessa og bank­inn bæðist for­láts.

NRK

TV2

Dagens Nær­ingsliv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert