Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins fullyrti í dag að Íran gæti framleitt kjarnorkuvopn innan „nokkurra vikna“ ef Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi landsins, gæfi samþykki fyrir því.
Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi að Íran hefði nú þegar allt til staðar til að framleiða slíkt vopn og það eina sem þyrfti væri ákvörðun leiðtogans.
Umræða um getu Írans til að framleiða kjarnorkuvopn hefur verið áberandi í samskiptum Bandaríkjanna og Ísraels við Íran. Síðast í júlí 2024 sagði Antony Blinken, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Íran gæti auðgað nægilegt magn úrans í vopnahæfan styrkleika á aðeins einni til tveimur vikum.
Sumir sérfræðingar telja þó að eftir auðgun úrans tæki það Íran allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár að smíða kjarnorkusprengju sem væri tilbúin til notkunar, samkvæmt frétt ABC um málið.
Leyniþjónusta Bandaríkjanna metur að Íran hafi safnað fordæmalausu magni auðgaðs úrans fyrir ríki sem hefur ekki kjarnorkuvopn.
Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, sagði þó í mars að ekki væri enn komin ákvörðun frá íranska leiðtoganum um að hefja smíði vopnsins.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að taka ákvörðun innan tveggja vikna um hvort ráðist verði á innviði Írans. Hann hefur í vikunni farið á fundi með ráðgjöfum sínum vegna vaxandi spennu eftir íranska árás á sjúkrahús í Ísrael.
Trump segist ætla að meta stöðuna á grundvelli möguleika á samningaviðræðum við Íran en tekur ákvörðunina einnig út frá eigin „innsæi“.
Hvíta húsið leggur áherslu á að markmið forsetans sé fyrst og fremst að tryggja að Íran komist ekki yfir kjarnorkuvopn og koma á stöðugleika í Mið-Austurlöndum.