Ísland er eitt fjórtán landa í Norður-Evrópu sem tekur þátt í samstarfi gegn skuggaflota Rússa. Skuggaflotinn eru skip sem hafa þjóðfesti utan Rússlands en hafa engu að síður haft milligöngu í sölu á rússneskri olíu á markaði sem eru Rússum lokaðir vegna viðskiptaþvingana.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Danmerkur. Auk Íslands og Danmerkur lýstu Belgar, Eistar, Finnar, Frakkar, Þjóðverjar, Lettar, Litháar, Hollendingar, Norðmenn, Pólverjar, Svíar og Bretar því yfir að samstarf yrði aukið í málaflokknum.
Í yfirlýsingu sem birt hefur verið á vef utanríkisráðuneytis Dana segir að tilgangur samstarfsins sé að sýna enn frekari festu þegar kemur að því að halda uppi lögum á hafi úti auk þess að bæta gagnsæi þegar kemur að viðskiptum á milli landa.
Hundruð skipa eru sögð taka þátt í að selja rússneska olíu fyrir hönd Rússa en skipum á vegum landsins er óheimilt að selja olíu á evrópskum mörkuðum.
„Ef skip sigla undir fölsku flaggi í Eystrasalti eða Norðursjó mun verða gripið til aðgerða í takti við alþjóðlega löggjöf,“ segir í yfirlýsingunni.