Sjö slösuðust í Gautaborg þegar sporvagn fór út af sporinu og hafnaði á matarvagni.
Slysið varð um klukkan eitt í nótt að staðartíma, eða klukkan 23 í gærkvöldi að íslenskum tíma.
Ekki er ljóst hvers vegna sporvagninn fór út af sporinu.
„Það myndaðist mikil ringulreið,” sagði Parosh Hama Ali, 31 árs, sem býr skammt frá slysstaðnum, í viðtali við Aftonbladet.
Morten Gunneng, varðstjóri hjá lögreglunni, sagði fólk í sporvagninum hafa slasast, þar á meðal ökumanninn, og einnig fólk úti á götu. Hann sagðist reikna með því að einhverjir væru alvarlega slasaðir.
Rannsókn stendur yfir á því sem gerðist.
Parosh Hama Ali sagðist hafa heyrt mikinn hávaða er hann var staddur í íbúð sinni.
„Ég var með gluggann opinn en ég hefði ekki þurft þess. Maður heyrði samt vel þegar slysið varð. Þetta hljómaði eins og einhver væri að skella bílsskúrshurð virkilega fast. Síðan heyrði ég öskur og áttaði mig á því að eitthvað alvarlegt hafði gerst,” sagði Ali, sem hljóp umsvifalaust á vettvang.
„Það myndaðist mikil ringulreið. Fleiri reyndu að hjálpa til, brutu rúður í sporvagninum og reyndu að ná fólki þaðan út. Það tókst á endanum,” bætti hann við.