Sjö slösuðust er sporvagn hafnaði á matarvagni

Sænskur lögreglubíll.
Sænskur lögreglubíll. mbl.is/Gunnlaugur

Sjö slösuðust í Gauta­borg þegar spor­vagn fór út af spor­inu og hafnaði á mat­ar­vagni.

Slysið varð um klukk­an eitt í nótt að staðar­tíma, eða klukk­an 23 í gær­kvöldi að ís­lensk­um tíma.

Ekki er ljóst hvers vegna spor­vagn­inn fór út af spor­inu.

„Það myndaðist mik­il ringul­reið,” sagði Parosh Hama Ali, 31 árs, sem býr skammt frá slysstaðnum, í viðtali við Aft­on­bla­det.

Morten Gunn­eng, varðstjóri hjá lög­regl­unni, sagði fólk í spor­vagn­in­um hafa slasast, þar á meðal öku­mann­inn, og einnig fólk úti á götu. Hann sagðist reikna með því að ein­hverj­ir væru al­var­lega slasaðir. 

Rann­sókn stend­ur yfir á því sem gerðist.

Heyrði mik­inn hávaða

Parosh Hama Ali sagðist hafa heyrt mik­inn hávaða er hann var stadd­ur í íbúð sinni.

„Ég var með glugg­ann op­inn en ég hefði ekki þurft þess. Maður heyrði samt vel þegar slysið varð. Þetta hljómaði eins og ein­hver væri að skella bíls­skúrs­h­urð virki­lega fast. Síðan heyrði ég ösk­ur og áttaði mig á því að eitt­hvað al­var­legt hafði gerst,” sagði Ali, sem hljóp um­svifa­laust á vett­vang.

„Það myndaðist mik­il ringul­reið. Fleiri reyndu að hjálpa til, brutu rúður í spor­vagn­in­um og reyndu að ná fólki þaðan út. Það tókst á end­an­um,” bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert