Þrír háttsettir íranskir embættismenn hafa verið drepnir í árásum Ísraela í dag auk þess sem ísraelski herinn hóf árásir á kjarnorkustöð Írans í Isfahan á ný fyrr í dag. Embættismennirnir störfuðu allir fyrir her Írans.
Greint var frá því í morgun að ísraelski herinn hafi fellt Mohammed Saeed Izadi, háttsettan íranskan embættismann, en hann var sagður hafa stýrt hernaðarsamvinnu íranskra stjórnvalda og hryðjuverkasamtakanna Hamas. Þá hefur verið greint frá því að hinir tveir embættismennirnir hafi verið Behnam Shahriyari og Aminpour Judaki.
Átök á milli ríkjanna hafa nú staðið yfir í rúmlega viku og virðist ekkert lát vera á árásum. Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Írans sagði í færslu á X í dag að árásir Ísraela hafi kostað yfir 400 manns lífið og að þúsundir hefðu særst.
Samkvæmt tölum frá ísraelskum stjórnvöldum hafa 24 almennir borgarar verið drepnir í árásum Írana frá því að átökin hófust.
Íbúar Ahvaz í suðvesturhluta Írans urðu varir við miklar sprengingar síðdegis í dag en Ísraelsher gaf frá sér tilkynningu þar sem segir að herinn sé að gera árásir á hernaðarinnviði á svæðinu.