Tikhanovskí óvænt leystur úr haldi

Sergei Tikhanovskí var leystur úr haldi í Hvíta-Rússlandi fyrr í …
Sergei Tikhanovskí var leystur úr haldi í Hvíta-Rússlandi fyrr í dag. AFP/Andrei Shauliuha

Ser­gei Tik­hanovskí, einn helsti stjórn­ar­and­stæðing­ur Hvíta-Rúss­lands, var óvænt leyst­ur úr haldi ásamt fjölda annarra póli­tískra fanga fyrr í dag.

Eig­in­kona hans, Svetl­ana Tik­hanovskí tók við kefl­inu í stjórn­ar­and­stöðunni eft­ir að hann var fang­elsaður. Hún seg­ir að Banda­rík­in hafi komið að sam­komu­lag­inu og þakkaði Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta.

Ser­gei Tik­hanovskí, sem er 46 ára, hafði setið í fang­elsi í meira en fimm ár. Hann hafði ætlað að bjóða sig fram gegn sitj­andi leiðtoga Hvíta Rúss­lands, Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, í for­seta­kosn­ing­un­um sem fóru fram í ág­úst 2020. Hann var í kjöl­farið hand­tek­inn og sett­ur í varðhald nokkr­um vik­um fyr­ir kosn­ing­arn­ar.

Eig­in­kona hans birti mynd­ir í dag þar sem hún faðmar eig­in­mann sinn eft­ir að hann var leyst­ur úr haldi og skrif­ar „FRJÁLS“ við færsl­una.

Þrett­án aðrir voru leyst­ir úr haldi, þar á meðal blaðamaður Radio Li­berty, Igor Kar­nei, sem var hand­tek­inn 2023 og dæmd­ur fyr­ir aðild að öfga­sam­tök­um.

Þeir hafa nú verið flutt­ir frá Hvíta-Rússlandi til Lit­há­en, þar sem þeir fá „viðeig­andi umönn­un“ að sögn Kestut­is Bu­drys, ut­an­rík­is­ráðherra Lit­há­ens.

Til­kynn­ing­in barst aðeins nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að Lúka­sj­en­kó fundaði með Keith Kellog, sér­stök­um sendi­manni Banda­ríkj­anna, í Minsk en það er um­fangs­mesta heim­sókn banda­rísks emb­ætt­is­manns til rík­is­ins í mörg ár.

Stjórn­ar­and­töðuflokk­ar bannaðir frá 1994

Hvíta-Rúss­land, sem Lúka­sj­en­kó hef­ur stjórnað frá 1994, hef­ur bannað alla stjórn­ar­and­stöðuflokka og er eina Evr­ópu­ríkið þar sem heim­ild fyr­ir dauðarefs­ing­um er í lög­um.

Eft­ir kosn­ing­arn­ar 2020 lýsti Lúka­sj­en­kó yfir yf­ir­burðasigri sem leiddi til mik­illa mót­mæla sem stjórn­völd bældu harka­lega niður.

Fyrr­ver­andi menn­ing­ar­málaráðherra Hvíta-Rúss­lands, Pavel Latú­skó, sem studdi mót­mæl­in gegn Lúka­sj­en­kó árið 2020, sagði alla þá sem voru leyst­ir úr haldi hafa verið fang­elsaða með ólög­mæt­um hætti og fagnaði um leið lausn Tik­hanovskí.

For­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, Ursula von der Leyen, fagnaði einnig lausn Tik­hanovskí og hvatti til þess að Hvíta-Rúss­land leysti aðra póli­tíska fanga úr haldi.

„Þetta eru frá­bær­ar frétt­ir og öfl­ugt tákn von­ar fyr­ir alla þá póli­tísku fanga sem þjást und­ir harðstjórn Lúka­sj­en­kó,“ seg­ir hún í færslu sinni á miðlin­um X.



mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert