Sergei Tikhanovskí, einn helsti stjórnarandstæðingur Hvíta-Rússlands, var óvænt leystur úr haldi ásamt fjölda annarra pólitískra fanga fyrr í dag.
Eiginkona hans, Svetlana Tikhanovskí tók við keflinu í stjórnarandstöðunni eftir að hann var fangelsaður. Hún segir að Bandaríkin hafi komið að samkomulaginu og þakkaði Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Sergei Tikhanovskí, sem er 46 ára, hafði setið í fangelsi í meira en fimm ár. Hann hafði ætlað að bjóða sig fram gegn sitjandi leiðtoga Hvíta Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, í forsetakosningunum sem fóru fram í ágúst 2020. Hann var í kjölfarið handtekinn og settur í varðhald nokkrum vikum fyrir kosningarnar.
Eiginkona hans birti myndir í dag þar sem hún faðmar eiginmann sinn eftir að hann var leystur úr haldi og skrifar „FRJÁLS“ við færsluna.
Þrettán aðrir voru leystir úr haldi, þar á meðal blaðamaður Radio Liberty, Igor Karnei, sem var handtekinn 2023 og dæmdur fyrir aðild að öfgasamtökum.
Þeir hafa nú verið fluttir frá Hvíta-Rússlandi til Litháen, þar sem þeir fá „viðeigandi umönnun“ að sögn Kestutis Budrys, utanríkisráðherra Litháens.
Tilkynningin barst aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Lúkasjenkó fundaði með Keith Kellog, sérstökum sendimanni Bandaríkjanna, í Minsk en það er umfangsmesta heimsókn bandarísks embættismanns til ríkisins í mörg ár.
Hvíta-Rússland, sem Lúkasjenkó hefur stjórnað frá 1994, hefur bannað alla stjórnarandstöðuflokka og er eina Evrópuríkið þar sem heimild fyrir dauðarefsingum er í lögum.
Eftir kosningarnar 2020 lýsti Lúkasjenkó yfir yfirburðasigri sem leiddi til mikilla mótmæla sem stjórnvöld bældu harkalega niður.
Fyrrverandi menningarmálaráðherra Hvíta-Rússlands, Pavel Latúskó, sem studdi mótmælin gegn Lúkasjenkó árið 2020, sagði alla þá sem voru leystir úr haldi hafa verið fangelsaða með ólögmætum hætti og fagnaði um leið lausn Tikhanovskí.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, fagnaði einnig lausn Tikhanovskí og hvatti til þess að Hvíta-Rússland leysti aðra pólitíska fanga úr haldi.
„Þetta eru frábærar fréttir og öflugt tákn vonar fyrir alla þá pólitísku fanga sem þjást undir harðstjórn Lúkasjenkó,“ segir hún í færslu sinni á miðlinum X.
Dear Sviatlana @Tsihanouskaya, this is fantastic news and a powerful symbol of hope for all the political prisoners suffering under the brutal Lukashenka regime.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) June 21, 2025
Europe continues to call for their immediate release. https://t.co/NSXw6gfBSm