Erfitt er að segja til um hvaða áhrif árás Bandaríkjanna á Íran geti haft fyrir átökin á milli Írans og Ísraels. Það veltur að mestu leyti á viðbrögðum Írana sem þurfa líklegast að bregðast við í náinni framtíð til að halda trúverðugleika sínum. Árásin sýnir að miklu leyti hernaðarlegt ofurefli Bandaríkjanna og Ísraels.
Þetta segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur í samtali við mbl.is, inntur eftir svörum um árás Bandaríkjanna á Íran, sem gerð var skömmu fyrir miðnætti í nótt að íslenskum tíma.
„Þetta kemur ekkert sérstaklega á óvart. Það virtist allt stefna í það [að Bandaríkin myndu gera árás á Íran] og svo var Trump búinn að samþykkja áætlun um árás þó svo að hann á þeim tíma ekki verið búinn að fyrirskipa árásina. Svo þetta virtist stefna í þessa átt,“ segir Erlingur.
Í yfirlýsingu sem Donald Trump Bandaríkjaforseti gaf frá sér í kjölfar árásarinnar í nótt kom fram að sprengt hafi verið á þremur stöðum í Íran þar sem Íranar hafa kjarnorkustarfsemi sína.
Sprengjum var varpað á Fordo, þar sem helsti hluti kjarnorkuáætlunar Írans er talinn staðsettur djúpt í jörðu auk þess sem sprengjum var varpað í Natans og Isfan, sem eru einnig hluti af kjarnorkustarfsemi Írans.
Trump sagði að árásirnar hafi verið mjög árangursríkar og að helstu kjarnorkumiðstöðvum Írana hafi verið tortímt. Erlingur segir að raunverulegt tjón árásanna eigi eftir að koma í ljós þrátt fyrir yfirlýsingar forsetans. Hann segir umfang tjónsins velta að miklu leyti á því með hvaða hætti Íran muni bregðast við.
Erlingur segir nokkrar sviðsmyndir koma til greina. Íranar gætu ráðist gegn bandarísku herliði í heimshlutanum en þúsundir bandarískra hermanna eru staðsettir í Mið-Austurlöndum. Þá gætu Íranar ráðist gegn olíuflutningum í Persaflóa sem kann að hafa töluverð efnahagsleg áhrif, en í kringum 30% af olíu heimsins fer í gegnum Persaflóa.
Jafnframt gætu Íranar ákveðið að bregðast ekki við og þess í stað ákveðið að halda áfram með kjarnorkuáætlun sína í leynd. Erlingur segir að einnig sé mögulegt að Íranar og Ísraelsmenn ákveði að koma að samningsborðinu og semja um frið en það er hins vegar ólíklegasta sviðsmyndin eins og staðan er akkúrat núna.
„Síðan er náttúrulega raunveruleg hryðjuverkaógn sem er ekki hægt að horfa framhjá. Íranar hafa sagt að bandarísk skotmörk um allan heim séu nú lögmæt. Þannig það gæti verið eitthvað viðbragð sem þeir grípi til núna eða seinna,“ segir Erlingur og útskýrir að Íranar gætu mögulega ráðist gegn bandarískum sendiráðum eða Bandaríkjamönnum einhvers staðar í heiminum í hefndarskyni.