Framhaldið veltur á viðbrögðum Írana

Erlingur segir árás Bandaríkjanna ekki koma mikið á óvart.
Erlingur segir árás Bandaríkjanna ekki koma mikið á óvart. Samsett mynd/AFP

Erfitt er að segja til um hvaða áhrif árás Banda­ríkj­anna á Íran geti haft fyr­ir átök­in á milli Írans og Ísra­els. Það velt­ur að mestu leyti á viðbrögðum Írana sem þurfa lík­leg­ast að bregðast við í ná­inni framtíð til að halda trú­verðug­leika sín­um. Árás­in sýn­ir að miklu leyti hernaðarlegt of­ur­efli Banda­ríkj­anna og Ísra­els. 

Þetta seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hernaðarsagn­fræðing­ur í sam­tali við mbl.is, innt­ur eft­ir svör­um um árás Banda­ríkj­anna á Íran, sem gerð var skömmu fyr­ir miðnætti í nótt að ís­lensk­um tíma. 

„Þetta kem­ur ekk­ert sér­stak­lega á óvart. Það virt­ist allt stefna í það [að Banda­rík­in myndu gera árás á Íran] og svo var Trump bú­inn að samþykkja áætl­un um árás þó svo að hann á þeim tíma ekki verið bú­inn að fyr­ir­skipa árás­ina. Svo þetta virt­ist stefna í þessa átt,“ seg­ir Erl­ing­ur.

Um­fang tjóns­ins segi til um viðbrögðin

Í yf­ir­lýs­ingu sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti gaf frá sér í kjöl­far árás­ar­inn­ar í nótt kom fram að sprengt hafi verið á þrem­ur stöðum í Íran þar sem Íran­ar hafa kjarn­orku­starf­semi sína.

Sprengj­um var varpað á For­do, þar sem helsti hluti kjarn­orku­áætlun­ar Írans er tal­inn staðsett­ur djúpt í jörðu auk þess sem sprengj­um var varpað í Natans og Is­fan, sem eru einnig hluti af kjarn­orku­starf­semi Írans. 

Trump sagði að árás­irn­ar hafi verið mjög ár­ang­urs­rík­ar og að helstu kjarn­orkumiðstöðvum Írana hafi verið tor­tímt. Erl­ing­ur seg­ir að raun­veru­legt tjón árás­anna eigi eft­ir að koma í ljós þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar for­set­ans. Hann seg­ir um­fang tjóns­ins velta að miklu leyti á því með hvaða hætti Íran muni bregðast við. 

Trump ávarpaði þjóð sína eftir árásirnar í nótt. Með honum …
Trump ávarpaði þjóð sína eft­ir árás­irn­ar í nótt. Með hon­um stóðu J.D. Vance, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, Pete Heg­seth, varn­ar­málaráðherra og Marco Ru­bio ut­an­rík­is­ráðherra. AFP/​Car­los Barria

Raun­veru­leg hryðju­verka­ógn

Erl­ing­ur seg­ir nokkr­ar sviðsmynd­ir koma til greina. Íran­ar gætu ráðist gegn banda­rísku herliði í heims­hlut­an­um en þúsund­ir banda­rískra her­manna eru staðsett­ir í Mið-Aust­ur­lönd­um. Þá gætu Íran­ar ráðist gegn olíu­flutn­ing­um í Persa­flóa sem kann að hafa tölu­verð efna­hags­leg áhrif, en í kring­um 30% af olíu heims­ins fer í gegn­um Persa­flóa.

Jafn­framt gætu Íran­ar ákveðið að bregðast ekki við og þess í stað ákveðið að halda áfram með kjarn­orku­áætlun sína í leynd. Erl­ing­ur seg­ir að einnig sé mögu­legt að Íran­ar og Ísra­els­menn ákveði að koma að samn­ings­borðinu og semja um frið en það er hins veg­ar ólík­leg­asta sviðsmynd­in eins og staðan er akkúrat núna. 

„Síðan er nátt­úru­lega raun­veru­leg hryðju­verka­ógn sem er ekki hægt að horfa fram­hjá. Íran­ar hafa sagt að banda­rísk skot­mörk um all­an heim séu nú lög­mæt. Þannig það gæti verið eitt­hvað viðbragð sem þeir grípi til núna eða seinna,“ seg­ir Erl­ing­ur og út­skýr­ir að Íran­ar gætu mögu­lega ráðist gegn banda­rísk­um sendi­ráðum eða Banda­ríkja­mönn­um ein­hvers staðar í heim­in­um í hefnd­ar­skyni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert