Loftárásir Ísraela á kjarnorkuinnviði Írana hafa einnig að mörgu beinst að helstu undirstöðum klerkastjórnarinnar í Íran. Þannig hafa Ísraelar náð að fella marga úr yfirstjórn íranska byltingarvarðarins og íranska hersins, en að auki hafa þeir í raun náð yfirráðum í lofti yfir vesturhluta Írans og geta því gert loftárásir nánast að vild þar, sem og í höfuðborginni Teheran.
Árásirnar hafa þannig náð að veikja stöðu klerkanna innan Írans mjög og hafa Ísraelar gefið því undir fótinn að nú gæti verið rétti tíminn fyrir írönsku þjóðina til þess að rísa upp og varpa af sér oki klerkastjórnarinnar, á sama tíma og þeir neita því að það sé eitt af stríðsmarkmiðum sínum.
Þannig sendi forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, á laugardaginn var frá sér ávarp til írönsku þjóðarinnar, og sagði þar að á sama tíma og Ísraelsher væri að ná fram markmiðum sínum með loftárásunum væri hann einnig að „hreinsa leiðina fyrir ykkur til að ná fram frelsi ykkar“ og að nú væri tækifæri til þess að „standa upp og láta raddir ykkar heyrast“.
Forseti Ísraels, Isaac Herzog, ítrekaði hins vegar í fyrrakvöld að Ísraelar hefðu það ekki sem sérstakt stríðsmarkmið að steypa klerkastjórninni af stóli, og þá tók hann sérstaklega fram að Ali Khamenei æðstiklerkur væri ekki beint skotmark hersins í loftárásum hans. Hins vegar bætti Herzog við að það yrði írönsku þjóðinni til góðs ef hann og klerkastjórnin hyrfu af sjónarsviðinu.
En hvað tæki þá við? Það er stóra spurningin, sér í lagi í ljósi þess að klerkaveldið hefur stjórnað landinu með harðri hendi frá árinu 1979. Í seinni tíð hefur verið vaxandi óánægja með harðstjórnina, og hafa mótmæli sprottið upp gegn henni á nærri því hverju ári frá 2016.
Eru þar nærtækustu dæmin annars vegar mótmælin 2019, en þar voru um 1.500 manns myrtir í aðgerðum öryggissveita landsins til þess að kveða niður mótmælin, og hins vegar mótmælin sem blossuðu upp árið 2022 eftir að Mahsa Amini lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar, en hún var handtekin fyrir að hafa brotið gegn slæðuskyldu klerkastjórnarinnar. Voru að minnsta kosti 550 manns drepnir í mótmælunum.
Klerkastjórnin hefur notið liðsinnis byltingarvarðarins við að berja niður mótmælin, en það eru sérstakar herdeildir sem klerkarnir komu á fót til þess að tryggja framtíð „íslamska lýðveldisins“ með öllum ráðum. Byltingarvörðurinn býr nú yfir rúmlega 125.000 manns, á sama tíma og íranski herinn sjálfur, sem hefur það hlutverk að verja Íran fyrir erlendum ógnum, býr yfir um 485.000 manns að byltingarverðinum frátöldum. Byltingarvörðurinn er því stundum kallaður ríki í ríkinu.
Ljóst er því að óánægja almennings með klerkastjórnina fer sívaxandi, og því ekki að undra að þeim möguleika sé velt upp nú hvort herferð Ísraela gæti reynst þúfan sem veltir þungu hlassi. Á sama tíma er ljóst að eftir 46 ára valdatíð klerkanna gæti skapast mikið tómarúm fari þeir skyndilega frá.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti varaði enda við því í vikunni að það væri ekki góð hugmynd að standa að stjórnarskiptum ef menn vissu ekki hvað tæki við. Nefndi hann þar sérstaklega Írak og Líbíu og það upplausnarástand sem skapaðist þar eftir að einræðisherrunum Saddam Hussein og Múammar Gaddafí var steypt af stóli.
Í báðum ríkjum leystust úr læðingi ýmis öfl sem höfðu verið kúguð á sama tíma og leifarnar af fyrri stjórnvöldum reyndu einnig að halda velli. Það þarf því ekki mikið ímyndunarafl til þess að hugsa sér að þeir leiðtogar byltingarvarðarins sem eftir stæðu myndu reyna að halda í einræðisskipulagið sem vörðurinn hefur gætt í tæpa hálfa öld, jafnvel þótt klerkarnir hverfi.
Þá eru Persar einungis um 50% af írönsku þjóðinni, en þar eru einnig fjölmennir þjóðflokkar Kúrda, Balúka, Araba, Armena og fleiri sem gætu vel hugsað sér framtíð án þess að lúta yfirvaldinu í Teheran.
Engin stjórnarandstaða er fyrir hendi innan Írans, þar sem flestir þeir sem andmæla klerkunum hafa neyðst til þess að flýja land eða hafa verra af. Enginn augljós arftaki er því fyrir hendi, jafnvel þótt það myndi takast að afstýra upplausnarástandi.
Reza Pahlavi, sonur síðasta Íranskeisara, hefur raunar boðið sig fram sem nokkurs konar sameiningartákn, sem gæti fært Íran á braut lýðræðis. Valdataka hans þykir ólíkleg á þessari stundu, og óvíst er hvort hann njóti þeirrar lýðhylli meðal almennings í Íran sem þarf til þess að halda stöðugleika.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.