Valgerður Birna Magnúsdóttir
Sjálfsvígssprengjuárásin sem var gerð á kirkju í Damaskus í Sýrlandi hefur vakið hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins.
Sýrlensk yfirvöld hafa sakað Ríki íslams [ISIS] um árásina, en utanríkisráðuneyti Sýrlands segir hana örþrifaráð sem sé til þess gert að valda óstöðugleika og grafa undan friðsælli sambúð mismunandi trúarhópa.
Erindreki Bandaríkjanna í Sýrlandi, Tom Barrack, lét skömmunum rigna yfir vígamennina á bak við árásina í færslu sinni á X og sagði hana vera dæmi um hugleysi sem ætti ekki heima í því nýja samfélagi sem Sýrlendingar eru að reyna byggja upp.
„Bandaríkin munu halda áfram sínum stuðningi við Sýrland í baráttu þeirra gegn aðilum sem reyna að valda óstöðugleika og ótta í landinu,“ segir í færslunni.
Utanríkisráðuneyti Tyrklands hefur fordæmt hina „svívirðilegu“ árás, sem og utanríkisráðuneyti Frakklands sem kallaði árásina „algeran hryðjuverkagjörning.“
Geir Pedersen, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, lýsti yfir reiði sinni vegna þessa „viðurstyggilega glæps“.
Hann kallaði jafnframt eftir aðgerðum frá stjórnvöldum og ítarlegri rannsókn á málinu.
Árásin er sú fyrsta af sínu tagi síðan ný stjórnvöld tóku við í Sýrlandi eftir að Bashar al-Assad var steypt af stóli, en nýviðtekin stjórnvöld hafa hlotið gagnrýni fyrir að vernda minnihlutahópa ekki nægilega vel.
Ríkisstjórn Assads hafði lengi málað sig sem verndarvætt minnihlutahópa í Sýrlandi, en þeir voru oft skotmörk árása þegar að á borgarastyrjöldinni stóð.