Fornleifafræðingar hafa í samstarfi við nemendur frá Háskólanum í Tromsø í Noregi grafið upp bæjarstæði og tveggja skipa langhús á jörð skammt frá Skånland-skólanum í Evenskjer í sveitarfélaginu Tjeldsund, sunnarlega í Troms-fylki, og er að fræðinga yfirsýn talið að húsið þar á bæjarstæðinu sé rúmlega þúsund ára gamalt, frá víkingatímabili sagnfræðinnar, um það bil árin 800 til 1050.
Er þar með hugsanlegt að í leitirnar sé komið eitt stærsta hús af þessari gerð sem fundist hefur í Norður-Noregi, en minjarnar, sem nú hafa verið grafnar upp, komu fyrst fram við leit með jarðsjá árið 2017. Jörðin hefur verið ræktarland um langt árabil sem gerir það að verkum að fornleifafræðingunum reynist örðugra að finna heillegar minjar. Hafa þeir þó fundið merki um stólpana sem húsið stóð á auk eldstæðis þar sem korn hefur sýnilega verið brennt.
Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, er mbl.is innan handar með skýringar á tveggja skipa langhúsi og segir þar um að ræða hús með þeirri skipan að einföld röð af stoðum gangi eftir endilöngu húsi án þess að um skilrúm sé að ræða.
„Algengara fyrirkomulag er tvær stoðaraðir sem standa á gólfi hússins og þá er hægt að tala um þrjú skip í húsinu,“ segir minjavörðurinn. „Í íslenskum skálum er hið eiginlega gólf því í miðskipinu með langeld í miðju húsi, en set svokölluð til hvorrar handar meðfram veggjum.“
Johan E. Arntzen, lektor í fornleifafræði við Háskólann í Tromsø, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að fundurinn sé einstakur í Troms-fylki og ástæðan fyrir því að uppgröftur á svæðinu hófst ekki fyrr en mörgum árum eftir að bæjarstæðið var uppgötvað sé sú að ekkert hafi legið á þar sem minjunum stafaði engin ógn af lagningu nýrrar Hálogalandsbrautar. Var sú framkvæmd kveikjan að skoðun svæðisins með tilliti til fornleifa er farið gætu forgörðum.
Knut Paasche, rannsakandi og deildarstjóri við Fornminjarannsóknastofnun Noregs, Norsk institutt for kulturminneforskning, staðfestir við NRK að fundurinn teljist einstakur í Norður-Noregi og það eina sem komist í hálfkvisti við hann í landshlutanum sé höfðingjasetrið Borg á Vestvåg-eyju norðanverðri í Lofoten sem fornleifafræðingar héldu vart vatni yfir á níunda áratug síðustu aldar, en þar var 67 metra langur skáli frá 6. öld – sem síðar hafði verið lengdur í 83 metra með viðbyggingu – grafinn upp.
Rökstyður Paasche orð sín með því að í fyrsta lagi sé það hreint fágæti að hús frá víkingatímabilinu finnist. Tveggja skipa hús frá þessu tímabili, það er að segja hús sem skipst hafa í tvö rými eftir endilöngu, hafi hins vegar ekki fundist í gervöllum Noregi fram til þessa.
Að sögn Stein Farstadvoll, dósents í fornleifafræði við Tromseyjarháskólann, eru tveggja skipa hús sem finnast almennt mun eldri en frá víkingatímabilinu, oftast frá því fyrir árið 1500 fyrir Krists burð, „en sá fundur er nú er kominn fram bendir til þess að slíkt hús hafi verið í eigu víkinga eða annarra manna eftir árið núll“, segir Farstadvoll og tekur fram að aldur hússins í Evenskjer sé þó enn á huldu, eftir standi að greina aldurinn með kolefnamælingu.
„Víkingar eða aðrir mektarmenn á þessu svæði gætu hafa átt sér bústað þarna,“ heldur Arntzen lektor áfram og bætir því við að í fyrndinni hafi stórbýli, jafnvel höfðingjasetur, staðið þar á jörðinni. „Býli á borð við þetta gæti líka tengst landbúnaði með húsdýrahaldi. Allt bendir til þess að þarna hafi verið stórbýli með miklum mannaforráðum,“ segir hann.
Nemendur í fornleifafræði, sem aðstoða við uppgröftinn, iða eðlilega í skinninu og ræðir NRK við Marthe Stupforsmo sem segir moldina mjúku kunna að geyma hulda fjársjóði. „Hér væri fróðlegt að finna gripi, kannski verkfæri,“ segir hún við fréttamenn. Nemendurnir vonast til að eiga þátt í enn stærri tímamótafundi en hér hefur þegar verið sýnt fram á. Ærin vinna er þó enn fram undan, en ekki örgrannt um að þegar öll kurl eru komin til grafar skili jarðvegurinn fræðimönnum munum jafngömlum langhúsinu.
NRK-II (stórt langhús fannst á Gjellestad i Halden árið 2020)
NRK-III (lagning vegar kveikjan að minjaleit í Tjeldsund)