Ekkert lát er á loftárásum Ísraela og Írana en Rauði hálfmáninn hefur tilkynnt að Ísraelar hafi gert árás nærri byggingu samtakanna í Teheran, höfuðborg Írans. Þá hafa loftvarnaflautur ómað um Ísrael í morgun en herinn þar hefur greint íranskar eldflaugar í lofthelgi landsins.
Ellefu dagar eru nú liðnir frá því að Ísrael hóf árás á Íran sem hrinti af stað átökum á milli ríkjanna. Um helgina blönduðu Bandaríkjamenn sér svo í leikinn og vörpuðu sprengjum á helstu kjarnorkuinnviði Írana.
Íranir hafa heitið hefndum en gangárásir Ísraela og Írana héldu áfram í nótt og í morgun.
Vopnaðir hópar í Íran hótuðu Bandaríkjunum í morgun „alvarlegum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum“ vegna árásar þeirra.
„Þessi fjandsamlegi gjörningur... mun víkka út umfang lögmætra skotmarka vopnaðra sveita íslamska lýðveldisins Írans og ryðja brautina fyrir útvíkkun stríðsins á svæðinu,“ sagði Ebrahim Zolfaghari, talsmaður vopnaðra sveita, í ríkissjónvarpi Írans.
Ali Akbar Velayati, ráðgjafi æðstaklerks Írans, Ayatollah Ali Khamenei, sagði að ráðast mætti á herstöðvar Bandaríkjanna „á svæðinu eða annars staðar“.
Þá gaf utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna út „alheimsviðvörun“ fyrir Bandaríkjamenn í gær.
Ísraelski herinn hefur gefið út að hann hafi ráðist á eldflaugastöðvar í vesturhluta Írans í nótt og í morgun sem og „sex flugvelli íranskra stjórnvalda“ um allt landið og eyðilagt orrustuþotur og þyrlur.
Mohammad Sadegh Motamedian, ríkisstjóri Teheran, sagði í ríkissjónvarpi landsins að „ráðist hefði verið á yfir 200 staði“ um alla höfuðborgina frá upphafi herferðar Ísraela 13. júní.
Í Ísrael hljómuðu loftvarnaflautur um allt land í morgun í yfir 30 mínútur til að vara við eldflaugaskotum frá Íran.
Árásir Ísraela á Íran hafa drepið yfir 400 manns, að sögn heilbrigðisráðuneytis Írans en samkvæmt opinberum tölum hafa árásir Írans á Ísrael drepið 24.