Lögreglan í sænsku borginni Malmö þusti á vettvang ásamt sjúkra- og slökkviliði þegar sprengja sprakk laust fyrir klukkan þrjú í nótt að sænskum tíma í íbúðahverfinu Värnhem í borginni miðri.
„Okkur barst tilkynning skömmu fyrir klukkan þrjú um að hvellur hefði heyrst og reykur sést auk þess að einhver hefði kastað einhverju inn í hús,“ segir Richard Nilsson, vakthafandi varðstjóri við björgunarmiðstöðina Räddningstjänesten Syd, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.
Engin urðu kaun á íbúum hverfisins við sprenginguna og hefur rannsókn á vettvangi enn sem komið er ekki leitt í ljós hvað það var sem sprakk. „Tæknimenn eru við rannsóknir á vettvangi. Smávægilegar skemmdir eru á húsinu, en þær eru ekki þess eðlis að fólki sé hætta búin við að vera þar,“ segir Henrik Hagström lögregluvarðstjóri við SVT.
Lokaði lögregla vettvangi fyrir umferð og var með mikla viðveru þar, en er síðast spurðist hafði enginn verið handtekinn vegna atburðarins. Greinir Hagström frá því að málið sé nú rannsakað sem skemmdarverk með almannahættu í för með sér og brot gegn lögum um meðferð eld- og sprengifimra efna.