Stakk kynsystur sína til bana í Árósum

Konan sem misgert var við var stungin margsinnis í efri …
Konan sem misgert var við var stungin margsinnis í efri hluta líkamans með oddhvössu áhaldi og drógu benjarnar hana til dauða. Á myndinni sést borgin Árósar, þó árið 1998, en konan var stungin í úthverfinu Viby J. Ljósmynd/Wikipedia.org/Aarhus kommune

Tæp­lega þrítug kona er í haldi lög­regl­unn­ar í Árós­um á Jótlandi hinu danska, grunuð um að hafa orðið fimm­tugri kyn­syst­ur sinni að bana í út­hverf­inu Viby J. síðdeg­is í gær. Frá þessu greindi lög­regl­an á Aust­ur-Jótlandi á sam­fé­lags­miðlin­um X í gær.

Voru at­b­urðir með þeim hætti að lög­reglu barst til­kynn­ing um þungt haldna konu klukk­an 16:31 að dönsk­um tíma og fylgdi sög­unni að hún hefði verið stung­in með eggvopni í bif­reið. Tæpri hálfri stundu síðar var kon­an úr­sk­urðuð lát­in á vett­vangi og gaf lög­regla það út í frétta­til­kynn­ingu sinni að hún hefði verið stung­in ít­rekað í efri hluta lík­am­ans.

Ekki leið á löngu uns kon­an, sem nú ligg­ur und­ir grun, var hand­tek­in skammt frá vett­vangi, en upp­lýst er að báðar kon­urn­ar, hin myrta og sú grunaða, eru skráðar til heim­il­is á Árósa­svæðinu.

Lokað þing­hald vegna hags­muna

„Við met­um aðstæður svo að fund­um kvenn­anna hafi borið sam­an fyr­ir til­vilj­un,“ seg­ir And­ers Uhrskov lög­reglu­stjóri Aust­ur-Jót­lands­lög­regl­unn­ar í frétta­til­kynn­ing­unni þar sem hann grein­ir jafn­framt frá því að enn liggi mik­il rann­sókn­ar­vinna fyr­ir áður en málið telj­ist upp­lýst.

Lög­regla fer ekki nán­ar út í þenn­an til­vilj­ana­kennda fund málsaðila og þegir einnig þunnu hljóði um það hvort kunn­leik­ar hafi verið með kon­un­um. Var grunaða leidd fyr­ir dóm­ara í gæslu­v­arðhaldsþing­haldi í morg­un sem lokað var með til­liti til rann­sókn­ar­hags­muna. Var það þó látið uppi að grunaða neitaði sök í mál­inu auk þess sem túlk­ur var til staðar við þing­haldið.

Fær­an­legri aðgerðamiðstöð lög­reglu hef­ur verið komið upp við vett­vang ódáðar­inn­ar og seg­ir í til­kynn­ingu lög­reglu að íbú­um í ná­grenn­inu sé vel­komið að heim­sækja hana vilji þeir eiga orð við lög­reglu.

„Lumi borg­ar­arn­ir á upp­lýs­ing­um sem þýðingu gætu haft fyr­ir rann­sókn­ina hlýðum við auðvitað á þá,“ skrif­ar Uhrskov lög­reglu­stjóri í til­kynn­ing­una.

DR

Jyl­l­ands-Posten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert