Tæplega þrítug kona er í haldi lögreglunnar í Árósum á Jótlandi hinu danska, grunuð um að hafa orðið fimmtugri kynsystur sinni að bana í úthverfinu Viby J. síðdegis í gær. Frá þessu greindi lögreglan á Austur-Jótlandi á samfélagsmiðlinum X í gær.
Voru atburðir með þeim hætti að lögreglu barst tilkynning um þungt haldna konu klukkan 16:31 að dönskum tíma og fylgdi sögunni að hún hefði verið stungin með eggvopni í bifreið. Tæpri hálfri stundu síðar var konan úrskurðuð látin á vettvangi og gaf lögregla það út í fréttatilkynningu sinni að hún hefði verið stungin ítrekað í efri hluta líkamans.
Ekki leið á löngu uns konan, sem nú liggur undir grun, var handtekin skammt frá vettvangi, en upplýst er að báðar konurnar, hin myrta og sú grunaða, eru skráðar til heimilis á Árósasvæðinu.
„Við metum aðstæður svo að fundum kvennanna hafi borið saman fyrir tilviljun,“ segir Anders Uhrskov lögreglustjóri Austur-Jótlandslögreglunnar í fréttatilkynningunni þar sem hann greinir jafnframt frá því að enn liggi mikil rannsóknarvinna fyrir áður en málið teljist upplýst.
Lögregla fer ekki nánar út í þennan tilviljanakennda fund málsaðila og þegir einnig þunnu hljóði um það hvort kunnleikar hafi verið með konunum. Var grunaða leidd fyrir dómara í gæsluvarðhaldsþinghaldi í morgun sem lokað var með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Var það þó látið uppi að grunaða neitaði sök í málinu auk þess sem túlkur var til staðar við þinghaldið.
Færanlegri aðgerðamiðstöð lögreglu hefur verið komið upp við vettvang ódáðarinnar og segir í tilkynningu lögreglu að íbúum í nágrenninu sé velkomið að heimsækja hana vilji þeir eiga orð við lögreglu.
„Lumi borgararnir á upplýsingum sem þýðingu gætu haft fyrir rannsóknina hlýðum við auðvitað á þá,“ skrifar Uhrskov lögreglustjóri í tilkynninguna.