Lífið í Tehran, höfuðborg Írans, virðist að einhverju leyti snúið í samt horf eftir 12 daga stríðsátök landsins við Ísrael.
Tilkynnt var um bráðabirgðavopnahlé milli landanna tveggja öllum að óvörum í morgun, þó að enn berist fregnir af eldflaugasendingum á báða bóga.
Ahmad Barqi, 75 ára gamall raftækjasali í Tehran segist í samtali við AFP-fréttastofuna bera litlar vonir til þess að vopnahléið muni endast. „Við vildum vopnahlé en þeir framfylgja því ekki, þeir standa ekki við loforð sín,“ segir hann og á við Ísraelsmenn.
„Ég veit í raun ekki með vopnahléið en satt að segja held ég ekki að hlutirnir muni snúa aftur í eðlilegt horf,“ sagði hann.
Stríðsástökin hafa einnig vægast sagt haft slæm áhrif á efnahagslíf Tehran-borgar þar sem fjöldi fyrirtækja sem og opinberra skrifstofa þurftu að loka sökum átakanna, á meðan borgarbúar leituðu skjóls í nærliggjandi sveitum.
Benyamin, 28 ára Tehranbúi, sagði einnig í samtali við AFP-fréttaveituna að hann væri efins um frið og öryggi sitt í Tehran, en að hann hefði engra kosta völ en að snúa aftur til höfuðborgarinnar frá ströndum Kaspíahafsins, þar sem tekjur hans hefðu verið hrunið á meðan hann flúði borgina.
„Þegar stríð er, þjást allir efnahagslega,“ sagði Benyamin.
„En ég held ekki að við ættum að hugsa um það núna. Forgangsatriðið er árásin gegn ástkæra landi okkar, sem við verðum að bregðast við,“ sagði annar kaupmaður í samtali við AFP að lokum.