Ellefu létust í sprengjuárásum Rússa

Ellefu létust og yfir hundrað særðust eftir sprengjuárásir Rússlands.
Ellefu létust og yfir hundrað særðust eftir sprengjuárásir Rússlands. AFP/Genya Savilov

Í það minnsta ell­efu lét­ust í sprengju­árás­um Rússa á Dnipropetrovsk-hérað í Úkraínu fyrr í dag. Um­fangs­mikl­ar sprengju­árás­ir Rúss­lands hæfðu leik­skóla, grunn­skóla og spít­ala. 

Lög­reglu­yf­ir­völd í Úkraínu segja níu vera látna í Dní­própetrovsk-héraði auk tveggja sem lét­ust í bæn­um Sam­ar skammt frá. Þá seg­ir í til­kynn­ingu lög­reglu yfir hundrað vera særða eft­ir árás­ir Rússa.

Rúss­land hef­ur ný­verið und­ir­búið sókn í Dní­própetrovsk-hérað í mið-aust­ur­hluta Úkraínu í fyrsta sinn frá upp­hafi inn­rás­ar­inn­ar 2022.

Selenskí og Trump funda síðar í dag

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti og Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hyggj­ast hitt­ast í dag sam­hliða leiðtoga­fundi Atlants­hafs­banda­lags­ins [NATO] sem fer fram í Haag í Hollandi.

Selenskí tjáði fjöl­miðlum í kjöl­far árás­ar­inn­ar að stríðið væri bar­dagi þar sem ekki væri erfitt að velja með hverj­um ætti að standa.

„Að standa með Úkraínu þýðir að standa með líf­um,“ sagði Úkraínu­for­seti eft­ir árás­ir Rúss­lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert