Masoud Pezeshkian forseti Írans segir landið sitt ekki sækjast eftir kjarnorkuvopnum en það muni halda áfram að verja „lögmæt réttindi“ sín í friðsamlegri notkun kjarnorku.
Í símtali við forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Mohammed bin Zayed, sagði Pezeshkian að Ísrael og Bandaríkin geti ekki náð fram „ósanngjörnum væntingum sínum með valdi“. Sagði hann að Íran hefði neyðst til að verja sig, og hann vonaði að Íranar myndu ekki neyðast aftur til þess að berjast.
„Við ætlumst til þess að þú útskýrir fyrir þeim, í viðskiptum þínum við Bandaríkin, að íslamska lýðveldið Íran sé aðeins að reyna að verja lögmæt réttindi sín. Það hefur aldrei sóst eftir að eignast kjarnorkuvopn og sækist ekki eftir því núna,“ sagði forseti Írans við starfsbróður sinn og bætti við að Íran væri „tilbúið til að leysa vandamálið við samningaborðið“.