Brasilísk yfirvöld hafa upprætt glæpahring sem stal launum knattspyrnumanna. Samtals stálu hrapparnir því sem nemur milljón real eða því sem nemur rúmum 22 milljónum króna.
Gerðu svikahrapparnir það með því að stofna bankareikning í nafni leikmanna úr brasilísku deildinni með fölsuðum skilríkjum. Því næst sendu þeir tölvupóst á knattspyrnufélögin og óskuðu eftir því að laun yrðu lögð inn á viðkomandi reikninga. Yfirvöld sögðu ekki hvaða leikmenn hefðu orðið fyrir barðinu á svikunum en brasilískir fjölmiðlar segja að meðal annara hafi sóknarmaður Cruzeira, Gabigol og Walter Kannemann, leikmaður Gremio, verið meðal fórnarlamba.
Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að um 13% af fénu hafi verið endurheimt en að um leið og peningarnir voru lagðir inn á reikninga hafi þeir verið teknir út í hraðbanka, þeir millifærðir á aðra reikninga eða notaðir við kaup á dýrum munum.
Umræddir leikmenn fengu tjónið bætt af bönkum sem féllu í gildruna. Lögregla gaf aðgerðunum dulnefnið „fölsk nía“ en það er hugtak sem er knattspyrnuunnendum tamt og vísar til stöðu leikmanns á knattspyrnuvelli. Ekki kemur fram hve margir voru handteknir vegna málsins en refsiramminn er allt að 33 ára fangelsi fyrir fjársvik, framvísun falskra skilríkja, skipulagða glæpastarfsemi og peningaþvætti.