Tveir ungir birnir sluppu úr búri sínu í Wildwood-dýragarðinum í Bretlandi í gær og átu vikubirgðir af hunangi úr matargeymslunni áður en þeir sofnuðu.
Systkinin Mish og Lucy sem bæði eru fjögurra ára gömul sluppu úr búri sínu í Wildwood Devon í suðvesturhluta Englands, að sögn The Guardian.
Leið þeirra lá beint í matargeymsluna þar sem þau gæddu sér á veitingum, þar á meðal sjö daga birgðum af hunangi, segir í yfirlýsingu frá garðinum.
Birnirnir „ógnuðu almenningi aldrei á neinum tímapunkti“ þó að gestum á staðnum hafi verið fylgt í öruggt skjól.
Uppákoman stóð yfir í klukkustund og voru birnirnir „stöðugt vaktaðir bæði á jörðu niðri og í gegnum eftirlitsmyndavélar“ þar til umsjónarmenn komu þeim aftur í búrið sitt og þeir „sofnuðu samstundis,“ samkvæmt talsmanni dýragarðsins. Lögreglan kom á staðinn til að rannsaka hvernig dýrin náðu að sleppa út.
Mish og Lucy voru tekin í umsjá Wildwood árið 2021 eftir að móðir þeirra yfirgaf þau í snjóskafli í albönsku fjöllunum.
Margar tilraunir voru gerðar til að koma húnunum aftur út í náttúruna en fljótlega varð ljóst að þau gætu ekki lifað af á eigin spýtur.
Myndskeið náðist af glæpnum: