Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi sínu á fundi Atlantshafsbandalagsins í Haag í dag að það væri möguleiki á því að Vladimir Pútín Rússlandsforseti myndi ráðast á fleiri lönd en Úkraínu í Evrópu.
Þá sagði hann friðarumleitanir í Úkraínu hafi reynst erfiðari en hann bjóst við fyrirfram og að Pútín hefði reynst „erfiðari“ en hann bjóst við. „Ég lít á hann sem einstakling sem er á villigötum,“ segir Trump um Pútín.
Þá upplýsti Trump um það að Pútín hefði hringt í sig til að bjóða fram hjálp sína í þeim átökum sem hafa átt sér stað í Mið-Austurlöndum undanfarið. Sagði hann hafa viljað vera millilið í umleitunum um frið á milli Bandaríkjanna, Ísraels og Íran.
„Hann hringdi í mig um daginn og sagði: Get ég hjálpað þér með Íran. Ég sagði, nei, þú getur hjálpað mér með Rússland,“ segir Trump.
Þá sagðist hann trúa því að Pútín vildi komast úr átökunum í Úkraínu. Áður en Trump komst í embætti að nýju í Hvíta húsinu sagðist hann getað endað átökin í Úkraínu á 24 stundum en sagði í dag: „Samningaviðræðurnar eru erfiðari en nokkur hélt að þær myndu verða“ og bætti við: „Pútín er erfiðari.“
Þá greindi hann frá því að hann hafi átt góðan fund með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og að til umræðu hafi komið að selja Úkraínumönnum Patriot eldflaugarvarnarkerfi.