Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Bandaríkin munu ræða við Íran í næstu viku, með mögulegt samkomulag á borðinu um kjarnorkuáætlun landsins.
„Við ætlum að ræða við þá í næstu viku, við Íran, við gætum skrifað undir samkomulag, ég veit það ekki,“ sagði forsetinn.
Trump segist telja stríðinu milli Írans og Ísraels lokið, báðar hliðar vilji ólmar ljúka átökunum.
Spurður hvers vegna hann væri svona öruggur með slíka fullyrðingu svaraði forsetinn blaðamönnum: „Ég glímdi við báða og báðir eru þreyttir, alveg úrvinda“.
„Þeir börðust af mjög, mjög miklum krafti og mjög grimmt, mjög ofbeldisfullt, og þeir voru báðir til í að fara heim og koma sér út,“ sagði Trump.