Farþegaflugvél með 33 farþega innanborðs nauðlenti fyrir klukkustund á flugvellinum í Bodø í Nordland-fylki í Noregi eftir að hafa hafið sig til flugs þar skömmu áður. Frá þessu greinir lögreglan í Nordland á samfélagsmiðlum.
Það var klukkan 09.08 sem vélin fór í loftið, að sögn Kenneths Magnussen lögregluvarðstjóra, það er 07.08 að íslenskum tíma. Ekki er enn ljóst hvað það var nákvæmlega sem úrskeiðis fór, en ekki liðu nema nokkrar mínútur þar til flugstjóri tilkynnti um bilun í hreyfli vélarinnar og bað um heimild til nauðlendingar.
Kom vélin inn til lendingar skömmu síðar og lenti klukkan 09.27, tæpum 20 mínútum eftir að hún hóf sig til flugs og var slökkvilið þá til reiðu við flugbrautina ásamt öðrum viðbragðsaðilum.
Lendingin gekk vel og engan um borð sakaði, eftir því sem lögregla segir af atvikinu.