Lögreglan í Ósló rannsakar nú skotbardaga sem til kom við Rommen þar í borginni á níunda tímanum í gærkvöldi að norskum tíma, en þar virðast þrír hópar, sem óku samtals þremur bifreiðum, hafa troðið illsakir sín á milli og látið vopnin tala.
Barst lögreglu tilkynning um fjölda skothvella og sendi bifreiðar á vettvang þar sem fimm manns í BMW-bifreið hittust fyrir og voru þegar handteknir, eftir því sem Yvonne Bjertnæs, yfirmaður rannsóknardeildar Óslóarlögreglunnar, greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá.
„Málið er á viðkvæmu stigi svo ég get ekki látið meira uppi eins og er,“ segir Bjertnæs enn fremur, en Kristian Digranes, sem stjórnaði aðgerðum lögreglu á vettvangi, sagði við ríkisútvarpið í gærkvöldi að nú riði á að komast að því hvað vakað hefði fyrir skotmönnunum.
Segir Digranes leit nú standa yfir að hinum tveimur bifreiðunum sem komu við sögu í málinu og fari sú leit fram jafnt úr lofti sem á jörðu niðri.
„Okkur grunar að hér hafi innbyrðis uppgjör átt sér stað,“ segir Digranes að lokum og hvetur vitni að skotbardaganum við Rommen til að setja sig í samband við lögreglu.