Dómurum óheimilt að stöðva tilskipanir Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hæstirétt­ur Banda­ríkj­anna hef­ur hafnað því að ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar um sjálf­krafa rík­is­borg­ara­rétt nái einnig til barna ólög­legra inn­flytj­enda sem fæðast inn­an banda­rískr­ar lög­sögu. 

Ákvörðun dóm­stóls­ins var birt fyrr í dag og mun for­seta­til­skip­un, þar sem rétt­ur slíkra barna til rík­is­borg­ara­rétts er end­an­lega af­num­in, því öðlast gildi.

Málið er þó einnig merki­legt fyr­ir þær sak­ir að áður höfðu dóm­ar­ar við lægri dóms­stig í Mary­land, Massachusetts og Washingt­on komið í veg fyr­ir að til­skip­un­inni yrði fram­fylgt með þeim rök­um að hún stangaðist á við stjórn­ar­skrá lands­ins .

Með úr­sk­urði sín­um hef­ur hæstirétt­ur­inn því staðfest að dóm­ar­ar á al­rík­is­stigi geti ekki stöðvað gildis­töku for­seta­til­skip­ana eins og ít­rekað hef­ur gerst í ýms­um mik­il­væg­um mál­um Trump-stjórn­ar­inn­ar.

Stór sig­ur fyr­ir Trump

Dóm­ar­ar rétt­ar­ins dæmdu eft­ir flokkslín­um í mál­inu en dóm­ar­ar demó­krata, þær Sonia Sotom­ayor, Elena Kag­an og Ket­anji Brown Jackson skiluðu sérá­kvæði þar sem niðurstaðan var for­dæmd. 

Niðurstaða máls­ins er óneit­an­lega afar stór sig­ur fyr­ir Trump og rík­is­stjórn hans en eitt hans helsta kosn­ingalof­orð var að af­nema sjálf­krafa rík­is­borg­ara­rétt barna ólög­legra inn­flytj­enda.

Þá hef­ur Trump einnig margoft þurft að standa í stappi við al­rík­is­dóm­ara sem dæmt hafa til­skip­an­ir hans ólög­leg­ar til þess eins að tefja fram­göngu mála sem eru hon­um og rík­is­stjórn hans póli­tískt mik­il­væg. 

Mis­beit­ing dómsvalds í póli­tísk­um til­gangi

Aðstoðar­starfs­manna­stjóri Hvíta húss­ins, Stephen Miller, hef­ur ít­rekað sakað al­rík­is­dóm­ara um að mis­beita dómsvaldi sínu með því að grípa fram fyr­ir hend­ur fram­kvæmd­ar­valds­ins með þess­um hætti. 

Sagði upp­lýs­inga­full­trúi Hvíta húss­ins það „áhyggju­efni og hættu­lega þróun þegar ókjörn­ir dóm­ar­ar blönduðu sér í ákv­arðana­töku­ferli for­set­ans“.

Í um­fjöll­un breska rík­is­út­varps­ins seg­ir að börn­um ólög­legra inn­flytj­enda hefði fjölgað um tæp­lega millj­ón frá ár­un­um 2016 til 2022. Hef­ur Trump ít­rekað lýst því yfir að hann telji að vísa skuli þeim úr landi með for­eldr­um sín­um, jafn­vel þó að þau hafi fæðst inn­an banda­rískr­ar lög­sögu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert