Haraldur Noregskonungur úrskurðaði á ríkisráðsfundi í dag, en sú samkoma fer með æðsta ákvörðunarvald norska ríkisins og samanstendur af konungi og ríkisstjórn, að ónafngreindur maður, búsettur í bænum Sandnes í Rogaland-fylki, skuli framseldur til Rúanda þar sem honum er ætlað að svara til saka fyrir manndráp sem hann er grunaður um að hafa framið árið 1994 þegar öfgamenn Hútúa myrtu 800.000 manns af Tútsí-ættbálki í blóðugri borgarastyrjöld.
Norska rannsóknarlögreglan Kripos handtók manninn árið 2022 og tveimur árum síðar, 2024, úrskurðaði norska millidómstigið lögmannsréttur að framsal hans til stjórnvalda í Rúanda teldist lögum samkvæmt. Staðfesti lögmannsréttur þar með dóm héraðsdóms, en Hæstiréttur Noregs frávísaði áfrýjun og stóð dómur lögmannsréttar því óraskaður.+
Dómsmálaráðuneyti Noregs úrskurðaði í febrúar að framsal skyldi fara fram og sagði í rökstuðningi sínum að Noregi bæri skylda til framsals samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð. Grunaði kærði úrskurðinn sem gekk þá til meðferðar konungs í ríkisráði sem úrskurðaði í dag að framsal skyldi eiga sér stað.
„Framsalskrafan hefur hlotið meðferð allra dómstiga og tveggja stjórnsýslustofnana,“ er haft eftir Theu Elise Kjæraas, ákæruvaldsfulltrúa rannsóknarlögreglunnar Kripos, í fréttatilkynningu. „Grunaði verður nú framseldur til Rúanda þar sem réttað verður yfir honum fyrir þátttöku í þjóðarmorði. Er það í samræmi við alþjóðlega samninga að refsimálið sé rekið þar sem afbrotið var framið,“ segir þar enn fremur.