Samtökin Palestine Action, sem til stendur að banna samkvæmt hryðjuverkalögum í Bretlandi, skipuleggja nú skemmdarverk víða um landið, þar á meðal á herstöð flughersins og verksmiðju sem framleiðir dróna.
Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins Telegraph.
Yvette Cooper, innanríkisráðherra Bretlands, segist ætla að banna samtökin samkvæmt breskum lögum um hryðjuverk.
Ákvörðun Cooper kemur í kjölfar þess að liðsmenn samtakanna brutust inn í Brize Norton-herstöðina og spreyjuðu rauðum lit á tvær herflugvélar. Mótmæli brutust út í kjölfarið og voru 13 handteknir.
Verði bannið samþykkt í breska þinginu verða samtökin svo gott sem skilgreind sem hryðjuverkasamtök og verður bannað með lögum að styðja samtökin. Þau sem það gera gætu átt von á allt að 14 ára fangelsisdómi.
Cooper segir að Palestine Action hafi lengi unnið skemmdarverk en frá árinu 2024 hafi samtökin æ oftar látið til skarar skríða og valdið meiri skaða. Skaðinn hlaupi á milljónum punda.
Á vefsíðu samtakanna kemur fram að þau séu samtök sem stundi „beinar aðgerðir“ og noti til þess „truflandi aðferðir“ gegn þeim sem styðja stríðsrekstur Ísraelsmanna.
Telegraph greindi frá því í gær að samtökin hefðu breskar herstöðvar og drónaverksmiðju í Leicester-borg í sigtinu.
Blaðamaður blaðsins tók upp netfund samtakanna og segir hann þau standa í umfangsmiklum aðgerðum til þess að fá fólk til að ganga til liðs við samtökin.
Á fundinum kom fram að þrjár herstöðvar breska hersins væru líklegastar sem næstu skotmörk samtakanna. Þetta eru herstöðvarnar Cranwell, Barkston Heath og Valley í Anglesey í Wales.
Fundargestum var sagt að þeir myndu verða hluti nýrrar endurbættrar bylgju af árásum á herstöðvar. Samtökin myndu halda áfram starfsemi sinni hvort sem þau yrðu skilgreind sem hryðjuverkasamtök eður ei.
Fundargestum var jafnframt bent á hvernig þeir ættu að haga sér ef þeir yrðu handteknir vegna gerða sinna í þágu samtakanna. Samtökin myndu ekki styðja þá fjárhagslega en myndu veita þeim „stuðning“.