Danskur félagi í vélhjólaklúbbnum Comanches MC í Danmörku er meðal þeirra sem grunaðir eru um að hafa átt hlut að máli þegar til skotbardaga kom á Rommen í Grorud-dalnum í Austur-Ósló í Noregi á miðvikudaginn.
Situr sá danski nú í gæsluvarðhaldi eftir að menn, eða hópar manna, á þremur bifreiðum skiptust á skotum. Eins og mbl.is greindi frá hafði lögregla hendur í hári fimm manna á BMW-bifreið er hún kom á vettvang. Liggja fimmmenningarnir allir undir grun í málinu og veit lögregla auk þess um að minnsta kosti einn mann sem skotið var á.
Daninn reyndist hafa hlotið dóm fyrir Héraðsdómi Óslóar 19. júní, við fjórða mann, fyrir ítrekuð ofbeldisbrot, hótanir og handhöfn skotvopns. Hlaut hann þá fimm mánaða dóm, en slapp við að afplána hann þar sem hann hafði setið svo lengi í gæsluvarðhaldi fram að réttarhöldunum að hann taldist hafa afplánað refsingu sína.
Greindi hann frá því fyrir héraðsdómi að hann hefði komið til Noregs þar sem hann óttaðist um öryggi sitt í Danmörku. Hafnaði hann því alfarið að Comanches MC væri nokkuð annað en félagsskapur áhugamanna um bifhjól.
Annað telja greiningardeildir lögreglu í Danmörku og Noregi þó og benda á að Comanches MC-klúbbarnir í báðum löndum hafi verið stofnaðir grunsamlega samtímis því sem hollenski vélhjólaklúbburinn Satudarah var leystur upp í Danmörku árið 2023 og bannaður í Noregi með dómi Héraðsdóms Óslóar í fyrra. Telur lögregla einfaldlega að Comanches sé endurholdgun Satudarah-klúbbsins.
Fimmmenningarnir, sem grunaðir eru um skotárásina á miðvikudaginn, sitja nú allir í gæsluvarðhaldi, en lögregla vill ekkert tjá sig um hvort atvikið tengist uppgjöri glæpagengja.
„Rannsókn málsins er skammt á veg komin, en uppákoman virðist ekki hafa verið tilviljun háð,“ segir Marie Steen Habberstad, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Usama Ahmad, verjandi danska ríkisborgarans, vísar því á bug við ríkisútvarpið að málið tengist vélhjólaklúbbum með nokkrum hætti og kveður Danann auk þess neita sök í málinu.
Lögregla hefur enn ekki lagt hald á skotvopn sem beitt var er í brýnu sló milli hópanna á miðvikudaginn.