Donald Trump Bandaríkjaforseti segist „ekki ætla að líða“ áframhaldandi málsókn gegn Benjamín Netanjahú fyrir spillingu.
„Bandaríkin eyða milljörðum dollara á ári hverju, mun meira en allar aðrar þjóðir, í að vernda og styðja Ísrael. Við líðum þetta ekki,“ sagði í færslu Trumps á miðli hans, Truth Social.
Netanjahú brást við með færslu á X og þakkaði forsetanum. „Saman munum við gera Mið-Austurlönd frábær aftur!“
Á föstudag hafnaði ísraelskur dómstóll beiðni Netanjahús um að fresta skýrslutöku yfir honum í spillingarmáli. Í úrskurði dómstólsins sagði að Netanjahú hefði ekki rökstutt beiðni sína á fullnægjandi hátt.
Í einu máli er Netanjahú og eiginkona hans Sara sökuð um að þiggja alls kyns lúxusvörur frá auðkýfingum, svo sem vindla, skartgripi og kampavín að andvirði meira en 260 þúsund Bandaríkjadali, í skiptum fyrir pólitíska greiða.
Í tveimur öðrum málum er Netanjahú sakaður um að hafa reynt að semja um hagstæða umfjöllun hjá tveimur ísraelskum fjölmiðlum.
Netanjahú neitar sök.
Lögmaður hans sendi inn beiðni til dómstólsins um að fresta skýrslutöku í tvær vikur þar sem forsætisráðherrann þyrfti að einbeita sér að „öryggismálum“.
Á miðvikudag kom Trump Netanjahú til varnar og sagði málsóknina á hendur honum „nornaveiðar“, sams konar þeim sem hann sjálfur sagðist hafa þurft að þola.
Í gær lýsti hann Netanjahú sem „stríðshetju“ og sagði málið draga athygli forsætisráðherrans frá samningaviðræðum við Íran og Hamas.