Frá og með deginum í dag eru reykingar bannaðar á ströndum, í almenningsgörðum og víðar á almannafæri í Frakklandi, samkvæmt nýrri reglugerð. Bannið nær einnig til biðskýla og svæða í nágrenni við skóla, sundlaugar og bókasöfn.
Reglugerðin er liður í átaki heilbrigðisyfirvalda til að draga úr áhrifum óbeinna reykinga og stuðla að „reyklausri kynslóð“ fyrir árið 2032. Þá er henni ætlað að vernda börn fyrir óbeinum reykingum.
Bannið nær þó ekki til útisvæða veitingastaða og kráa, auk þess sem rafsígarettur falla ekki undir nýja bannið.
Á ströndinni í La Porge, nærri Bordeaux, voru misjöfn viðbrögð meðal gesta.
„Mér finnst þetta fáránlegt. Við komum með öskubakka og pössum upp á okkur, en nú megum við ekki reykja í görðum eða á ströndum,“ sagði reykingamaðurinn Damien Dupois.
Romain Boonaert, sem ekki reykir, fagnaði hins vegar nýju reglunum.
„Það er nóg pláss, en það er aldrei skemmtilegt að fá reyk yfir sig – og sumir reykja annað en sígarettur. Þetta minnkar allt vesen.“
Reykingar verða einnig bannaðar í tíu metra radíus frá skólum, bókasöfnum, sundlaugum og öðrum svæðum þar sem börn eru líkleg til að dvelja. Heilbrigðisráðuneytið hyggst birta nánari útfærslu á fjarlægðarmörkum á næstu dögum. Brot gegn banninu getur leitt til 135 evru sektar eða því sem nemur um 19 þúsund íslenskum krónum en að hámarki getur sektin verið 700 evrur eða tæplega 100 þúsund krónur.
Yves Martinet, formaður baráttusamtaka gegn reykingum (CNCT), segir bannið „skref í rétta átt“ en gagnrýnir að það nái ekki til veitingastaða og rafsígaretta.
„Til að reglur séu áhrifaríkar þurfa þær að vera skýrar – ekkert tóbak eða nikótín á almannafæri,“ segir Martinet.
Samtök veitinga- og hótelrekenda mótmæla hins vegar hugmyndum um að takmarka reykingar frekar og segja auðvelt að aðskilja reykjandi frá öðrum gestum.
Samkvæmt opinberum tölum valda óbeinar reyking allt að 5.000 dauðsföllum á ári í Frakklandi. Dagsreykingarfólki fer stöðugt fækkandi og árið 2023 reyktu tæplega fjórðungur fullorðinna daglega. Tóbaksnotkun veldur samtals um 75.000 dauðsföllum á ári og er sagt kosta samfélagið um 156 milljarða evra árlega.
Samkvæmt skoðanakönnun styðja 62 prósent Frakka reglugerðina.