Hvassviðri í Suður- og Austur-Noregi hefur gert ýmsa skráveifuna þar um helgina, svo sem við ferjuhöfnina í Ósló þar sem Color Fantasy, ein af Danmerkurferjum útgerðarinnar Color Line, lenti í kraftmiklum stormstreng í morgun og skall með skipshliðina á bryggjukantinn svo nokkurt tjón hlaust af.
Erik Brynhildsbakken, forstjóri Color Line, staðfesti atvikið við norska ríkisútvarpið NRK skömmu eftir að það varð í morgun og sagði þá unnið að því að kanna skemmdir á ferjunni með það fyrir augum hvort hún næði að halda áætlun sem hann taldi líklegt.
„Ég var í káetunni þegar ég fann heljarmikið högg,“ sagði farþegi sem NRK ræddi einnig við og bætti því við að slagsíða hefði í kjölfarið komið á ferjuna sem væri óvenjulegt.
Þá berst slökkvilið í Buskerud-fylki við gróðurelda í þorpinu Lampeland sem fara hratt yfir í vindhviðum sem mælast um og yfir 20 metrar á sekúndu og breiða eldarnir úr sér að sögn Glenn Espen Kustner slökkviliðsvarðstjóra.
„Á nokkrum stöðum hafa tré fallið á vegi og lokað þeim í báðar áttir með því að leggjast yfir báðar akreinar,“ segir Barbro Evensen Venhagen sem ræðir við NRK fyrir hönd umferðareftirlitsmiðstöðvarinnar í Buskerud. Segir hún tré auk þess hafa fallið á og skemmt síma- og rafmagnslínur.
Appelsínugul veðurviðvörun vegna hvassviðris er nú í gildi fyrir fylkin Buskerud og Innlandet að hluta auk þess sem gul viðvörun gildir fyrir svæði í fylkjunum Sognsæ og Firðafylki, Mæri og Raumsdal, Suður-Þrændalögum, Agder, Telemark og Buskerud.
Vakthafandi varðstjóri Aðalbjörgunarmiðstöðvarinnar, Hovedredningssentralen, Siv Namork, lætur þau boð út ganga að almenningur hugi vel að fokgjörnum lausamunum utandyra og ekki síst að því að bátar séu kirfilega bundnir við bryggju, en vart finnst það byggðarlag í Noregi, sem land á að sjó, þar sem bátaeign er ekki nokkuð almenn.
Norska veðurstofan Meteorologisk institutt segir á vefsíðu sinni að reikna megi með að vind lægi með kvöldinu.
VG (húsbíll fauk út í sjó – myndskeið)