Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur beðist afsökunar fyrir að hafa ekki stöðvað beina útsendingu frá tónleikum breskrar pönkrapphljómsveitar á Glastonbury-tónlistarhátíðinni eftir að hún lét falla ósæmileg orð um Ísraelsher.
„Dauði, dauði, yfir IDF,“ hrópaði Bobby Vylan, forsprakki hljómsveitarinnar, en IDF er skammstöfun Ísraelshers.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur fordæmt hræðilega hatursorðræðu en milljónir manna fylgdust með beinni útsendingu frá tónleikunum.
„Einn flutningur í beinni útsendingu okkar innihélt ummæli sem voru mjög móðgandi. Gyðingahatur Bobs Vylan var algjörlega óásættanlegt og á engan stað í útvarpsstöðvum okkar. BBC virðir tjáningarfrelsi en stendur staðfastlega gegn hvatningu til ofbeldis,“ segir í yfirlýsingu BBC.
Í yfirlýsingu frá stjórnendum tónlistarhátíðarinnar segir:
„Við minnum alla sem komu að skipulagningu hátíðarinnar á að það er enginn staður á Glastonbury fyrir gyðingahatur, hatursorðræðu eða hvatningu til ofbeldis.“