Írönsk yfirvöld hafa handtekið ríflega þúsund manns og tekið tugi af lífi í þöggunaraðgerðum eftir átök ríkisins við Ísrael að sögn aðgerðarsinna.
Þeir saka hið íslamska ríki um að nota ótta til þess að bæta upp fyrir þá veikleika stjórnarinnar sem átökin leiddu í ljós.
Samkvæmt mannréttindasamtökum hafa aðgerðasinnar verið handteknir á götum úti eða á heimilum sínum, aftökum verið flýtt, fangar verið fluttir á óþekkta staði og minnihlutahópar einnig verið teknir fyrir.
Samtökin Iran Human Rights sem hafa höfuðstöðvar í Noregi segja sex menn hafa verið hengda vegna gruns um að þeir hafi stundað njósnir fyrir Ísrael, og tugi í viðbót vegna annarra stríðstengdra ásakana.
Ríflega þúsund manns hafa verið handtekin síðan átökin hófust samkvæmt samtökunum, meirihluti þeirra á þeim grundvelli að gögn frá ísraelska hernum hafi fundist í símum þeirra.
Roya Boroumand, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakana Abdorrahman Boroumand Center, segir að með þessum aðgerðum reyni írönsk stjórnvöld að kæfa ósætti meðal almennings.
Árásir Ísraels hafi niðurlægt írönsk stjórnvöld og sýnt að þau hafi hvorki stjórn yfir eigin loftrými né getu til að vernda eigin borgara.
Hún segir aðgerðirnar minna á ofsóknir stjórnvalda gegn andófsmönnum í kjölfar vopnahlés sem bundu enda á stríð Írans við Írak sem stóð yfir á árunum 1980-1988, en þeim fylgdu þúsundir aftaka.
„Ef ekkert er gert gæti ofbeldið sem beint er að Írönum beinst að öðrum utan landamæranna,“ bætir hún við.