Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, hefur sagt gleðigönguna sem fram fór í Búdapest um helgina til skammar.
Þrátt fyrir að lögregla hafi bannað gönguna var þátttökumet slegið á laugardag, en skipuleggjendur telja að yfir 200.000 manns hafi gengið um stræti Búdapest fyrir hinsegin réttindum á laugardag.
Meðal þátttakenda voru fimm fulltrúar Samtakanna ‘78.
Stjórnvöld segja bannið við gleðigöngunni gert til verndar börnum, en árið 2021 var það gert ólöglegt að sýna börnum efni sem inniheldur LGBTQ-vísanir.
„Ég er einn þeirra sem tel það sem hér hefur farið fram ekki neitt til að vera stoltur af… mér finnst þetta til skammar,“ sagði Orban í viðtalsbroti sem birst hefur á samfélagsmiðlum.
Voru þetta hans fyrstu viðbrögð við göngunni, en viðtalið mun birtast í heild sinni seinna í kvöld.
Áður en gangan fór af stað sagði Orban að lögregla myndi ekki stöðva gönguna, en hann varaði þátttakendur þó við lagalegum afleiðingum.
Myndavélar voru settar upp meðfram leiðinni, en vegna nýlegra lagabreytinga í Ungverjalandi geta stjórnvöld nýtt andlitsþekkingartækni til þess að bera kennsl á þá sem tóku þátt í göngunni.
Skipuleggjendur göngunnar eiga í hættu að vera dæmdir í allt að eins árs fangelsi og almennir þátttakendur gætu þurft að greiða 500 evrur (71.150 kr.) í sekt.