Yfirvöld í Brussel í Belgíu hafa lokað aðgengi að Atomium-minnisvarðanum í borginni vegna mikils hita en hitastigið í belgísku höfuðborginni fór hátt í 37 gráður í dag.
„Vegna mikils hita og byggingarlegs eðlis mannvirkisins verður hitastigið inni í Atomium sérstaklega hátt næstu daga,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum minnisvarðans, en um er að ræða stærðarinnar kúlur úr ryðfríu stáli sem var reist árið 1958.
Hægt er að fara inn í mannvirkið sem lítur út eins og sameind. Yfirvöld hafa ákveðið að loka aðgengi þremur og hálfri klukkustund fyrr í dag og á morgun vegna veðurs, en mikil hitabylgja gengur nú yfir Evrópu.
Það heyrir til tíðinda að aðgengi að Atomium, sem var reist fyrir heimssýninguna 1958, sé lokað vegna hita.
Atomium, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar, er 102 metra há bygging. Henni hefur aðeins einu sinni verið lokað áður af þessari ástæðu, eða í júlí 2019 þegar hitastigið náði 41,8 gráðum.