Donald Trump Bandaríkjaforseti, hefur hótað því að siga hagræðingarteymi bandarísku ríkisstjórnarinnar (DOGE) á fyrrverandi ráðgjafa sinn Elon Musk.
Musk var upprunalega einn helsti hvatamaður þess að ráðuneytið yrði stofnað og varð síðar yfirmaður þess.
Kastast hefur í kekki milli þeirra Trumps og Musk upp á síðkastið en fari svo að Trump gefi hagræðingarteyminu lausan tauminn, á Musk það á hættu að tugmilljarða ríkisstyrkir og niðurgreiðslur til fyrirtækja hans verði skornir niður.
„Elon gæti fengið langhæstu niðurgreiðslur í mannkynssögunni,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðlum.
„Kannski ættum við að láta DOGE skoða þetta vel og vandlega? NÓG AF PENINGUM TIL AÐ SPARA ÞAR.“
„Doge er skrímslið sem gæti þurft að fara aftur og éta Elon. Hann fær mikla styrki,“ bætti hann við.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hefur Musk hins vegar haldið því fram að hann sé hlynntur niðurskurði Trumps.
Af færslum á samfélagsmiðlum að dæma lét Musk sér a.m.k. fátt um finnast og hvatti Trump þess í stað til að skera alla styrkina niður.
„Ég er bókstaflega að segja, SKERÐU ALLT NIÐUR. Núna.“ sagði Musk á samfélagsmiðlinum X.
Musk hefur gagnrýnt mjög hið svokallaða stóra, fallega frumvarp sem Bandaríkjaþing samþykkti nú fyrr í dag.
Hefur hann ítrekað bent á að frumvarpið sé aðeins til þess fallið að auka á fjárlagahalla Bandaríkjanna til frambúðar, Frumvarpið miðar að því að raungera mörg helstu stefnumál Trumps og m.a. létta skattbyrði fólks og fyrirtækja en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er áætlað að skuldir bandaríska ríkisins gætu aukist um 3.000 milljarða bandaríkjadala í kjölfarið.