Yfirvöld í París, höfuðborg Frakklands, lokuðu fyrir stundu útsýnipöllum á toppi Eiffelturnsins þegar hiti í borginni fór upp í tæpar 37 gráður.
Þá þurftu yfirvöld í Belgíu einnig að loka Atóm-byggingunni í Brussel, en líkt og Eiffelturninn er hún mestmegnis byggð úr stáli og því viðkvæm fyrir svo miklum hita.
Hitabylgja geisar nú víðs vegar í Evrópu og hefur hún nú þegar valdið töluverðum usla víðs vegar um álfuna.
Hafa Ítalir t.a.m. lagt blátt bann við því að fólki stundi vinnu utandyra stóran hluta dags en talið er að rekja megi allt að þrjú dauðsföll á Ítalíu til hitabylgjunnar.
Samkvæmt frétt The Guardian hafa innlagnir á spítala sömuleiðis aukist um tæp 15-20% sökum bylgjunnar.
Hitabylgjan hefur sömuleiðis leikið ýmis önnur Miðjarðarhafslönd grátt, en tugþúsundir Tyrkja hafa þurft að flýja heimili sín vegna gróðurelda.
Þá sagði skógræktarráðherra Tyrklands, İbrahim Yumaklı, að slökkviliðsmenn hefðu verið kallaðir út vegna 263 skógarelda víðs vegar um landið á undanförnum dögum. Slökkviliðsmenn hafa einnig verið að berjast við skógarelda í Frakklandi og Ítalíu, sérstaklega á eyjunum Sardiníu og Sikiley.