Efri deild bandaríska þingsins hefur samþykkt „stóra og fallega“ frumvarp Donalds Trump.
Þó eru enn efasemdir á lofti vegna mikils niðurskurðar á velferðarsviði Bandaríkjanna og þeirra 3.000 milljarða Bandaríkjadala sem áætlað er að frumvarpið bæti á skuld ríkisins.
Leiðtogar Repúblikanaflokksins höfðu átt í nokkrum erfiðleikum með að safna stuðningi við frumvarpið í metlöngum breytingatillöguumræðum sem vörðu í 24 klukkustundir. Þar lögðu demókratar fram tugi áskorana við umdeildustu þætti frumvarpsins.
John Thune, leiðtoga meirihlutans, tókst að snúa tveimur meðalhófsmönnum frá því að kjósa gegn frumvarpinu og kjósa þess í stað með því. Þá var staðan jöfn – fimmtíu atkvæði gegn fimmtíu.
Féll það þá í hlut varaforsetans JD Vance að skera úr um niðurstöðu þingsins.
Næsti áfangastaður frumvarpsins er fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem það stendur frammi fyrir sameinaðri andstöðu demókrata og margra repúblikana sem líst ekki á niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og á mataraðstoð til fátækra Bandaríkjamanna.
Frumvarpið felur í sér framhald skattalækkana frá fyrri forsetatíð hans sem nema 4.500 milljörðum dala.
Til þess að jafna tap ríkissjóðs út verður skorið niður um 1.200 milljarða á ýmsum sviðum ríkisins, þá aðallega Medicaid-sjúkratryggingar sem gert er ráð fyrir að muni svipta um 12 milljónir Bandaríkjamanna aðgangi að heilbrigðisþjónustu.
Trump hefur sagt skýrt að hann hyggist ná frumvarpinu gegnum fulltrúadeildina á næstu dögum og lögfesta það fyrir þjóðhátíðardaginn 4. júlí, á föstudag.
„Það mun komast inn, það mun ná í gegn, og við verðum mjög glaðir,“ sagði hann blaðamönnum við komu sína til Flórída í dag, en þangað ferðaðist hann til að skoða nýja gæsluvarðhaldsaðstöðu fyrir ólöglega innflytjendur.
Skoðanakannanir sýna að frumvarpið er með óvinsælli frumvörpum sögunnar, og vonast demókratar til þess að geta nýtt sér reiði kjósenda í kosningum sem verða á næsta ári, um miðbik kjörtímabilsins.