Íbúar Gasa sem staddir voru nálægt dreifingarstöðvum mannúðaraðstoðar segja Hamas-liða þar hafa stundað hryðjuverk, áróður og falsað myndefni samkvæmt hljóðupptökum frá COGAT, samhæfingardeild innan varnarmálaráðuneytis Ísraels.
Þetta kemur fram í grein The Jerusalem Post.
Hljóðupptökur COGAT leiða samkvæmt tímaritinu í ljós áætlanir Hamas til að koma í veg fyrir dreifingu bandarísku hjálparsamtakanna GHF á matvælum til íbúa Gasa nálægt Nuseirat-flóttamannabúðunum.
Matvæla- og mannúðaraðstoð til Gasa hefur verið mikið hitaefni og hafa stjórnvöld í Ísrael legið undir þungum ásökunum innan alþjóðasamfélagsins um að hafa ítrekað komið í veg fyrir að mannúðaraðstoð nái til Gasa.
Samkvæmt hljóðupptökunum segja íbúar Gasa Hamas-liða hafa hafið skothrinur nálægt dreifingarstöðvum og fullyrt síðan að sökudólgarnir hafi verið IDF-liðar.
Hamas hafi einnig falsað myndefni og gefið út til þess að styðja við „uppspunnar tölulegar upplýsingar um fjöldamörg dauðsföll“.
GHF gaf í gær út upplýsingar þess efnis að Hamas hafi sett fé til höfuðs bandarískum öryggisvörðum sem starfa fyrir samtökin á svæðinu.
Hamas hafi jafnframt ráðist á starfsfólk hjálparsamtakanna, myrt 12 þeirra og rænt fleirum og pyntað.