Auðjöfurinn og fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Elon Musk, hefur heitið því að stofna nýjan stjórnmálaflokk með skjótum hætti ef nýtt efnahagsfrumvarp Trumps nær fram að ganga á þinginu.
Bandaríkjaflokkurinn, eða America Party, yrði settur til höfuðs Repúblikanaflokknum en Musk hefur hingað til verið stærsti styrktaraðili hans í landinu, að því er The New York Times greindi frá.
Undanfarið hafa Musk og Trump gagnrýnt hvor annan harkalega á eigin samfélagsmiðlum.
„Ef þetta brjálaða eyðslufrumvarp verður samþykkt verður Bandaríkjaflokkurinn stofnaður daginn eftir,” skrifaði Musk á samfélagsmiðil sinn X þar sem hann er með 220 milljónir fylgjenda.
„Þjóðin okkar þarf annan valkost heldur en Demókrata- og Repúblikanaflokkinn til að fólkið hafi raunverulega RÖDD.”