Þeir eru með rúmlega 550.000 hlustendur á hverjum mánuði á Spotify. Þeir eru með 11.325 fylgjendur á sömu streymisveitu. Þeir eru búnir að gefa út tvær 13 laga plötur á þessu ári og sú þriðja kemur út um þarnæstu helgi.
Eini gallinn á hljómsveitinni: Ekkert bendir til þess að hún hafi nokkurn tímann verið til.
Leyfið mér að kynna fyrir ykkur hljómsveitina The Velvet Sundown. Á Spotify segir að menn hlusti ekki bara á The Velvet Sundown heldur fari fljótandi með tónlist þeirra. Þá segir að í tónlist hljómsveitarinnar blandist saman „„Seventís“ psýkedelískt alt-rokk og fólk-rokk, sem blandast á sama tíma án fyrirhafnar við nútíma alt-popp og indí-strúktúra. Glimrandi tremolo, hlýtt segulbandsbergmál (e. tape reverb) og mjúk blanda af orgeli gefur öllu sögulegan blæ án þess að það hljómi tilgerðarlegt.“
Lýsing Spotify á meðlimum hljómsveitarinnar er heldur ekki af verri endanum. Stofnandi hennar og leiðtogi er Gabe Farrow, sem syngur og spilar á orgel. Með honum eru gítarleikarinn Lennie West, hljómborðsleikarinn Milo Rains, sem raunar er oftast sýndur með bassa eða gítar í hendi, og síðast en ekki síst trommuleikarinn Orion „Rio“ Del Mar, sem mun vera mjög frjáls í anda ef marka má Spotify.
Þessir dánumenn eru engir aukvisar miðað við hlustun á lög þeirra. Það vekur þó óneitanlega athygli að þegar nöfn þeirra eru slegin inn í leitarvélar netsins, sem aldrei gleymir neinu, kemur enginn þeirra upp, nema þá sem hluti af greinum tónlistarspekúlanta um hvort hljómsveitin sé í raun og veru til eða ekki.
Í þeim vangaveltum hefur verið bent á að lýsingin á Spotify á sveitinni og tónlist hennar hljómar alveg eins og ef hún væri skrifuð af gervigreindinni. Þá hefur einnig verið nefnt að allar hljómsveitarmyndirnar af þeim virka örlítið eins og þær hafi verið teknar með júgursmyrsl á linsunni. Þar hafa hljómsveitarmeðlimir sést í upptökuverinu, allir á sama fermetranum, eða að spila á tónleikum fyrir framan enga áhorfendur. Þá hafa þeir einnig leikið eftir hið fræga plötuumslag Bítlanna af Abbey Road-plötunni og einnig smellt sér í fræga „pósu“ sem hljómsveitin Queen tileinkaði sér.
Eitt má nefna til, sem ansi sterka vísbendingu um að gervigreindin sé í raun að baki The Velvet Sundown: Hin ótrúlegu afköst hljómsveitarinnar. Fyrsta plata hennar, Floating on Echoes, kom út 5. júní síðastliðinn og inniheldur 13 lög, en þar má m.a. nefna lögin Rebel Shout og Dust on the Wind. Hefur síðarnefnda lagið nú fengið um 475.000 „hlustanir“ á þeim rúma mánuði sem það hefur verið á Spotify.
Fimmtán dögum síðar var hljómsveitin tilbúin með sína aðra plötu, Dust and Silence. Innihélt hún sömuleiðis 13 lög, sem hafa mest fengið um 50.000 „hlustanir“ á Spotify.
Flestum þætti það nú ágætis dagsverk að hafa komið út tveimur plötum á innan við mánuði með 26 lögum, en The Velvet Sundown er hvergi nærri hætt, því að þriðja platan, Paper Sun Rebellion, á að koma út hinn 14. júlí næstkomandi. Verður hún einnig með 13 lögum.
The Velvet Sundown mun þá hafa gefið út 39 lög á einum og hálfum mánuði. Til samanburðar má nefna að Bítlarnir, sem þykja ein af iðnari hljómsveitum sögunnar, náðu á ferli sínum að gefa út 219 lög á átta árum. Ef bara er horft til þeirra 194 laga sem Bítlarnir sömdu sjálfir gáfu þeir út um það bil 24 lög á ári þau ár sem hljómsveitin starfaði. Bítlarnir hafa því einfaldlega verið „skildir eftir í rykinu“ af The Velvet Sundown.
Ekki er vitað hver stendur að baki The Velvet Sundown, en ljóst er að sá hefur náð að nýta sér algrími Spotify-veitunnar til þess að koma tónlist sveitarinnar inn á vinsæla hlustunarlista, sem m.a. eiga að færa hlustendum „klassískt rokk“ og „seventís“ tónlist, eða jafnvel tónlist sem einkennir Víetnam-stríðið.
Það þýðir að viðkomandi hefur einnig fengið greiddar þær tekjur sem fylgja spilun á lögum hljómsveitarinnar samkvæmt formúlunni sem Spotify notar. Í því samhengi má benda á að gervigreindin hefur ekki sjálf lært á hljóðfæri, heldur byggjast lagasmíðar hennar á vinnu sem aðrir lögðu á sig, svita þeirra og tárum.
Þá er The Velvet Sundown einungis toppurinn á ísjakanum. Ljóst er að gervigreindarlögum mun fjölga mjög á komandi árum. Gæðin verða sífellt meiri, og er nú þegar orðið erfitt að greina á milli hvar greind og gervigreind hafa komið að lagasmíðinni. Þeir svartsýnustu sem horfa á þessa þróun velta því fyrir sér hvort hún gæti boðað „endalok tónlistarinnar“, þar sem ódýrar stafrænar eftirhermur drekki þeim sem vilja semja sín eigin lög og flytja.
Hér skal ekki fullyrt neitt um það hvort „flauelssólsetrið“ sé undanfari slíkra ragnaraka. Hitt er þó víst, að hinar nýfengnu vinsældir bandsins hafa ýtt undir ákall til Spotify um að tónlist sem samin er með aðstoð gervigreindarinnar verði sérstaklega merkt sem slík.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.